- Auglýsing -
- Auglýsing -

Auka hraðann og fækka höfuðhöggum

Magnús Kári Jónsson og Heimir Örn Árnason handknattleiksdómarar. Ljósmynd/HSÍ
- Auglýsing -

Alþjóða handknattleikssambandið hefur í hyggju að gera nokkrar breytingar á leikreglum handknattleiksins á næsta ári eftir því sem fram kemur í frétt TV2 í Danmörku. Eiga þær annarsvegar að auka hraða leiksins og hinsvegar að taka á höfuðhöggum markvarða.

Tilgangurinn er að auka hraða leiksins meðal annars með því að fækka þeim sendingum sem lið eiga, eftir að merki um töf hefur verið gefið. Nú er reglan sú að boltinn má ganga sex sinnum innan liðs eftir að merki hefur verið gefið. Til stendur að fækka heimiluðum sendingum innan liðs niður í fjórar eftir að merki um töf hefur verið gefið.


Til viðbótar er uppi hugmyndir um að lið geti hafið leik á ný eftir að hafa fengið boltann, sé leikmaður innan skilgreinds hrings á miðjum leikvellinum. Þar með gæti sókn hafist inni á leikvelli andstæðingsins, sé sóknarmaður með boltann innan hringsins. Eftir því sem handbolti.is skylst, hefur ekki enn verið að fullu skilgreint hversu stór miðjuhringurinn á að vera að þvermáli.


Með þessari reglu getur liðum orðið hált á svellinu að kalla markvörð sinn af leikvelli og leika með sjö menn í sókn. Ástæðan er sú að með breytingu á töku frumkasts sem að ofan er getið eru meiri líkur á að markvörður andstæðinganna verði ekki mættur á sinn stað. Sjö manna sóknarleikur er þyrnir í augum margra þjálfara og áhugamanna um handknattleik. Þykir hann hafa breytt leiknum til hins verra og hægt mjög á hraðanum.


Þriðja breytingin snýr að því þegar bolta er kastað í höfuð á markverði. Samkvæmt þeim hugmyndum sem nú er unnið að verður refsað með a.m.k. tveggja mínútna brottvísun í hvert sinn sem bolti fer í höfuð markvarðar. Á þessari reglu verða engar undanþágur eins og nú er og lýtur að því hvort markvörður hafi staðið kjurr eða ekki.


Verði þessar breytingar samþykktar muni þær taka gildi eftir ár hér á landi svo dæmi sé tekið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -