Bikarmeistararnir fallnir úr leik

Bjarki Már Elísson og félagar úr Lemgo töpuðu í undanúrslitum í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Bjarki Már Elísson og félagar í Lemgo verja ekki bikarmeistaratitilinn í ár. Lemgo tapaði í dag með tveggja marka mun, 28:26, fyrir Kiel í undanúrslitum í Hamborg. Bjarki Már var markahæstur leikmanna Lemgo með sjö mörk, þar af þrjú úr vítaköstum. Hann skoraði þar á meðal síðasta mark liðsins þegar leiktíminn var úti.


Kiel mætir annað hvort Magdeburg eða Erlangen í úrslitaleik á morgun. Magdeburg og Erlangen mætast í hinni viðureign undanúrslitanna síðar í dag.


Staðan var jöfn, 12:12, og mátti vart á milli liðanna sjá fyrr en á síðustu mínútunum. Lemgo var marki yfir, 24:23, þegar sjö og hálf mínúta var eftir. Eftir það skoraði Kiel fjögur mörk gegn einu áður en Bjarki skoraði síðasta mark leiksins.


Sander Sagosen skoraði átta mörk fyrir Kiel auk fimm stoðsendinga. Niklas Landin, markvörður Kiel, var vel með á nótunum og var með 38% hlutfallsmarkvörslu.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -