Bjartsýni gætir hjá Gísla Þorgeiri

Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður SC Magdeburg. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður efsta liðs þýsku 1. deildarinnar, SC Magdeburg, er á batavegi eftir að hafa fengið högg á vinstra lærið í síðari viðureign SC Magdeburg og Sporting Lissabon í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik á þriðjudaginn.


„Ég er á batavegi og er bjartsýnn á að ég nái leiknum við Wetzlar á sunnudaginn,“ sagði Gísli Þorgeir í skilaboðum til handbolta.is í morgunsárið. Leikið verður á heimavelli Wetzlar sem situr í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar. Magdeburg er sem fyrr segir efst með fimm stiga forskot á Füchse Berlin þegar leikir níu umferða standa eftir óleiknir.


Gangi allt að óskum hjá Gísla Þorgeiri ætti hann að vera klár í slaginn þegar leikmenn íslenska landsliðsins koma saman til undirbúnings fyrir landsleikina við Bregenz í Austurríki fyrri partinn á mánudaginn. Fyrri viðureignin verður í Bregenz á miðvikudaginn en sú síðari á Ásvöllum laugardaginn 16. apríl.


Enn er fáanlegir aðgöngumiðar á leikinn á Ásvöllum. Úrslit leikjanna skera úr um hvort íslenska eða austurríska landsliðið tekur þátt í heimsmeistaramótinu í janúar á næsta ári.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -