Björgvin Þór hefur ákveðið að rifa seglin

Björgvin Þór Hólmgeirsson fyrir miðri mynd þegar hann gekk til liðs við Stjörnuna í fyrra. Mynd/Stjarnan

Björgvin Þór Hólmgeirsson hefur tekið þá ákvörðun að leika ekki handknattleik á næsta keppnistímabili. Vera kann að hann sé alveg hættur í handknattleik. Björgvin Þór staðfesti þetta í samtali við handbolta.is fyrir stundu. Sagði hann annir koma í veg fyrir að hann haldi áfram.

„Kannski er ég kominn í ótímabundið frí eða alveg hættur. Skórnir eru að minnsta kosti komnir upp í hillu hvort sem það verður um lengri eða skemmri tíma. Maður á kannski aldrei að segja aldrei. Ég verð að minnsta kosti ekki með í vetur,“ sagði Björgvin Þór við handbolta.is.


„Ég á von á mínu þriðja barni í september og það er spurning hversu lengi það er réttlætanlegt að eyða tveimur til þremur tímum á dag í æfingar og keppni,“ sagði Björgvin Þór sem lék með Stjörnunni á síðasta keppnistímabili og varð næst markahæsti leikmaður liðsins sem komst í undanúrslit Íslandsmótsins í fyrsta sinn. Þótti Björgvin vera einn allra besti leikmaður liðsins.


„Ég hugsagði vel um þetta í sumar en byrjaði að æfa með Stjörnunni í sumar. Ég sá fljótlega að þetta gengi ekki til lengdar og tilkynnti því stjórn deildarinnar ákvörðun mína. Mér fannst rétt að gera það núna i góðum tíma áður en Íslandsmótið hefst í stað þess að stökkva frá borði þegar allt verður komið á fulla ferð,“ sagði Björgvin Þór sem leikið hefur með ÍR, Haukum, Stjörnunni, Rheinland í Þýskalandi og Al Wasl í Dubai.
Einnig á Björgvin Þór nokkra landsleiki að baki.


Björgvin Þór er 33 ára gamall. Hann sagðist vera sáttur við þessa ákvörðun. Hann hafi fengið mikið út úr handboltanum á ferlinum. Upplifað margt og notið þessa tíma. „Nú tekur annað við. Sumir segja að maður eigi að hætta meðan maður er enn í góðu standi,“ sagði Björgvin Þór Hólmgeirsson, handknattleiksmaður í samtali við handbolta.is í dag.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -