- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU18: Kjartan Þór skaut Íslandi inn á tvö næstu stórmót

Gríðarlegur fönguður braust út hjá íslensku piltunum þegar flautað var til leiksloka og sigurinn var í höfn. Mynd/EHF
- Auglýsing -

Kjartan Þór Júlíusson tryggði U19 ára landsliðinu sigur á Svartfellingum, 30:29, þegar hann skoraði sigurmarkið átta sekúndum fyrir leikslok í viðureign Íslands og Svartfjalllands á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi í dag.

Ærandi fögnuður braust út þegar skot Svartfellinga fór í slána og íslenskur sigur var í höfn. Mynd/EHF


Sigurinn var afar mikilvægur því með honum er ljóst að íslenska liðið verður í hópi 12 efstu á þessu móti en það er sá fjöldi liða sem tryggir sér beint farseðilinn á HM 19 ára landsliða á næsta ári og inn á EM 20 ára landsliða eftir tvö ár.


Íslensku piltarnir skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins á lokamínútunum tveimur eftir að hafa verið með bakið upp við vegg nánast frá fyrstu mínútunni. Svartfellingar náðu sókn eftir að Kjartan Þór skoraði 30. markið en skot beint úr aukakasti söng í markslá íslenska liðsins til staðfestingar á íslenskum sigri.

Liðin sem hafna í ellefu efstu sætum EMU18, auk landsliðs Króatíu, tryggja sér keppnisrétt á HM U19 ára landsliða sem fram fer í Króatíu á næsta sumri. Einnig fara sigurvegararnir frá B-mótum EM þremur sem nú standa yfir inn á HM sem fulltrúar Evrópu.
EM20 ára landsliða sem fram fer eftir tvö ár verður skipað 24 liðum, ekki 16 eins og nú er. Framkvæmdastjórn EHF samþykkti í vor að fjölga liðum í lokakeppni yngri landsliða til samræmis við það sem gerist á meðal A-liða. Af þessu leiðir að 13 efstu liðin á EM í Svartfjallandi fá farseðil í lokakeppni EM 20 ára landsliða eftir tvö ár.


Upphafskaflinn var slakur. Svartfellingar skoruðu fimm fyrstu mörk leiksins. Lengi á eftir blés ekki byrlega fyrir íslensku piltana. Þeir voru sjö mörkum undir, 14:7, þegar 20 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik. Eftir það kom frábær sprettur og aðeins munaði einu marki í hálfleik, 16:15, Svartfellingum í hag.

Mynd/EHF


Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleik vel og komst m.a. tveimur mörkum yfir, 21:19. Virtist liðið vera að ná tökum á leiknum. Svo reyndist ekki vera.

Svartfellingar svöruðu með þremur mörkum í röð og náðu frumkvæðinu á ný. Sóknarleikur íslenska liðsins gekk brösulega gegn hávaxinni 6/0 vörn Svartfellinga sem voru áfram með eins og tveggja marka forystu.


Íslensku stuðningsmennirnir létu vel í sér heyra. Mynd/EHF


Þegar liðlega tvær mínútur voru til leiksloka tók íslenska liðið leikhlé í stöðunni, 27:29. Eftir það gekk allt eins og í sögu. Framliggandi vörn íslenska liðsins sló vopnin úr höndum Svartfellinga sem sáu sigurinn renna sér úr greipum.

Þórsarinn Viðar Ernir Reimarsson, maður leiksins, t.h. Mynd/EHF


Viðar Ernir Reimarsson var valinn maður leiksins af mótshöldurum og var það svo sannarlega verðskulduð viðurkenning.


Mörk Íslands: Viðar Ernir Reimarsson 6, Kjartan Þór Júlíusson 6, Atli Steinn Arnarsson 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Sæþór Atlason 3, Andri Fannar Elísson 2, Hinrik Hugi Heiðarsson 2, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Elmar Erlingsson 1, Hans Jörgen Ólafsson 1.

Varin skot: Ísak Steinsson 6, Breki Hrafn Árnason 1.


Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -