- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekki áhugi fyrir Ítalíuför

Matea Lonac, markvörður KA/Þórs, og samherjar hennar eiga fyrir höndum leiki við Jomi Salerno í Evrópbikarkeppninni. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Við höfum engan áhuga á að fara út. Annaðhvort fara leikirnir fram heima eða að við drögum liðið úr keppni,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KA/Þór spurður um væntanlega leiki liðsins í Evrópubikarkeppninni. Eins og fram kom á handbolta.is í gærmorgun þá dróst KA/Þór á móti Jomi Salerno í 3. umferð keppninnar.

Telur möguleika góða


Ráðgert er að leikirnir fari fram 14. eða 15. nóvember og 21. eða 22. nóvember. „Viðræður við forráðamenn Salerno-liðsins er hafnar. Það er okkar ósk að báðir leikirnir fari fram á okkar heimavelli,“ sagði Andri Snær sem telur að KA/Þór eigi góða möguleika gegn ítalska liðinu.


„Það er spennandi að taka þátt í Evrópukeppni og allir í KA/Þór vilja taka þátt sem sýnir metnaðinn í félaginu. Hinsvegar er enn langur vegur í að fá samþykkt að spila báða leikina á okkar heimavelli og ljóst að þetta verður alltaf flókið í framkvæmd í ljósi aðstæðna á þessum óvissutímum,“ sagði Andri Snær.

Glaðbeittir leikmenn Jomi Salerno eftir sigur leik snemma í mánuðinum. Mynd/heimasíða Jomi Salerno


Fram hefur komið að miðað við núverandi sóttvarnareglur þá má ítalska liðið m.a. ekki fara með áætlunarflugi frá Reykjavík til Akureyrar. Yrði það að ferðast til og frá Keflavíkurflugvelli með fólksflutningabifreið og hlíta svokallaðri vinnustaðasóttkví og taka auk þess tillit til strangra reglna sem Handknattleikssamband Evrópu setur um ferðalög handknattleiksliða á tímum kórónuveirunnar.

Vítamínsprauta fyrir handboltann


„Stjórnin er að skoða alla vinkla á málinu og hvort þetta sé mögulegt. Við tökum svo ákvörðun um þátttökuna í kjölfarið á þessari vinnu og því verður þetta að koma í ljós hvort við spilum leikina. Vonandi skýrist málið sem allra fyrst. Ég vona það besta. Sannarlega væri frábært að fá tækifæri til að spila í Evrópukeppninni enda myndi það vera vítamínsprauta í handboltann á Akureyri. Á sama tíma er maður raunsær og viðbúinn öllu,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs sem væntir þess að ákvörðun liggi fyrir á allra næstu dögum.

Eitt tap og fjórir sigrar


Jomi Salerno er í þriðja sæti ítölsku 1. deildarinnar um þessar mundir með átta stig að loknum fimm leikjum. Um síðustu helgi tapaði Jomi fyrir Oderzo, sem er efsta lið deildarinnar, með fimm marka mun á heimavelli, 25:20.
Salerno er sunnarlega á vesturströnd Ítalíu, suðaustur af Napolí, ekki langt frá hinni sögufrægu Pompei. Róm er í 233 km loftlínu norðvestur af Salerno.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -