Fann strax að eitthvað hafði farið úrskeiðis

Sunna Jónsdóttir á fullri ferð í landsleik. Mynd/HSÍ

„Líkamlega hef ég haft það betra en á móti kemur að ég er frábærum félagsskap í sóttkví með vinkonum úr Eyjum sem geta bætt nær allt upp,“ sagði Sunna Jónsdóttir landsliðskona í handknattleik og leikmaður ÍBV. Hún var annar af tveimur leikmönnum íslenska landsliðsins sem kom heim í gær í hjólastól úr keppnisferð íslenska landsliðsins til Norður-Makedóníu. Hin er Steinunn Björnsdóttir en grunur leikur á að Steinunn hafi slitið krossband eftir aðeins 14 mínútur í leik gegn Norður-Makedóníu síðast liði föstudagskvöld. Í sama leik meiddist Sunna einnig þótt það hafi ekki orðið ljóst fyrr hversu alvarleg hennar meiðsli voru fyrr en daginn eftir.


Ljóst er að Sunna leikur ekki með ÍBV alveg á allra næstu dögum eftir að sóttkví verður yfirstaðin.

Margt spennandi framundan

Sprunga er í öðrum sköflungi Sunnu auk þess sem bólga er í vöðva. Hún verður næstu níu daga í gifsi af þessum sökum. „Ég er mjög svekkt yfir þessu vegna þess að það er svo margt spennandi framundan bæði með ÍBV og landsliðinu. En ef vel tekst til þá á ég möguleika á að ná einhverju af þessu sem framundan er í handboltanum. Það er bara áfram gakk. Ég kem sterkari til baka og ætla mér að ná leikjunum við Slóvena í umspilinu fyrir HM. Ég hef svo frábært fólk allstaðar í kringum mig sem fer með mér í gegnum þetta,“ sagði Sunna í samtali við handbolta.is í dag.

Harkaði af sér

Sunna meiddist í fyrsta leik íslenska landsliðsins í forkeppni HM gegn Norður-Makedóníu. Hún harkaði af sér og lék með til enda í burðarhlutverki eins og ekkert hefði í skorist. „Ég fann strax að eitthvað hafði farið úrskeiðis en hélt áfram. Daginn eftir lékum við gegn Grikkjum. Þegar ég byrjaði að hita upp fann ég fljótt að ég gat ekki haldið áfram vegna verkja og varð að draga mig út sem voru mikil vonbrigði,“ sagði Sunna sem lék á föstudaginn sinn fyrsta landsleik í þrjú og hálft ár.


„Stemningin var frábær í landsliðshópnum og ég finn það á mér að það geta verið spennandi tímar framundan sem gaman væri að taka þátt í.“

Tinna Sól Björgvinsdóttir, Thea Imani Sturludóttir, Steinunn Björnsdóttir og Sunna Jónsdóttir á í vörninni. Mynd/HSÍ


Sunna naut góðrar ummönnunnar hjá tveimur sjúkraþjálfurum og hjúkrunarfræðingi sem voru í för með íslenska landsliðinu í Skopje. Væntanlega hefur það hinsvegar gert illt verra hjá henni að halda áfram leik á föstudaginn og fara síðan í upphitun daginn eftir.

Á sjúkrahús í millilendingu

„Ferðalagið heim var langt og strangt. Ég var mjög kvalin og bólgin þegar við komum til Kastrup í gærmorgun. Þá komst ég sem betur fer í skoðun á spítala þar sem hægt var að létta mér aðeins förina heim. Sem betur fer þá rétt náði ég fluginu heim frá Kastrup eftir skoðunina. Eftir heimkomuna var hægt að veita mér undanþágu til að komast í skoðun hjá lækni hér heima. Þá fékk ég gifs sem ég verð að sætta mig við að vera í næstu níu daga. Að þeim tíma liðnum verður staðan tekin,“ sagði Sunna.

Hættulegt gólfefni

Sunna telur víst að ástæðan fyrir meiðslum hennar og Steinunnar megi skrifa á gólfefnið sem er á keppnishöllinni í Skopje. Gólfið var mjög stamt en þannig gólfefni býður því miður hættunni heim á meiðslum af þessu tagi þar sem engu er líkara en fæturnir festist við gólfið.


„Það þýðir bara ekki að tala um það. Svona er þetta. Ég vinn mig út þessu og kem sterkari til leiks,“ sagði Sunna sem líst vel á leikina sem framundan eru hjá íslenska landsliðinu sem mætir Slóveníu í undankeppni HM kvenna eftir miðjan apríl. Þar verður í boði fyrir sigurliðið farseðill á heimsmeistaramótið sem fram fer á Spáni í desember.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -