- Auglýsing -
- Auglýsing -

Faxi kemur í staðinn fyrir Erling

Staffan Olsson hefur verið ráðinn þjálfari hollenska karlalansliðsins í handknattleik. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Svíinn Staffan Olsson, eða Faxi eins og hann kallaðist hér á landi um langt árabil, hefur verið ráðinn eftirmaður Eyjamannsins Erlings Richardssonar sem þjálfari hollenska karlalandsliðsins í handknattleik karla. Olsson er ráðinn til tveggja ára. Tilkynnt var í byrjun júní að Erlingur héldi ekki áfram þjálfun landsliðsins þrátt fyrir að hafa náð aðdáunarverðum árangri.


Johan Flinck blaðamaður á Aftonbladet vekur athygli á því á Twitter í kvöld að 11 ár séu liðin síðan Olsson var síðast aðalþjálfari og þá hjá Hammarby. Síðan hefur hann alltaf starfað við hlið annars þjálfara. Ole Lindgren vann með Olsson með sænska landsliðið og töldust þeir jafn réttháir. Einnig var Olsson um skeið aðstoðarmaður Noka Serdarušić hjá franska meistaraliðinu PSG.


Hollenska landsliðið hefur verið í stórsókn á síðustu árum undir stjórn Erlings sem tók við þjálfun þess 2017. Liðið komst inn í fyrsta sinná EM árið 2020 og var aftur með á EM í byrjun þessa árs. Þá má segja að hollenska landsliðið hafi verið spútniklið mótsins og hafnaði í 10. sæti. M.a. tapaði það með eins marks mun fyrir íslenska landsliðinu og vann ungverska landsliðið í vígsluleik íþróttahallarinnar í Búdapest sem varð aðalvettvangur EM 2022.


Fyrsta verkefni Olsson með hollenska landsliðið verða fyrstu leikirnir í undankeppni EM í október áður en HM í janúar tekur við en Holland fékk boðskort á mótið frá Alþjóða handknattleikssambandinu eftir að hafa naumlega misst af sæti í gegnum undankeppnina í apríl.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -