- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fram komst á toppinn eftir spennuleik

Rakel Dögg Bragadóttir æa hliðarlínunni í leik KA/Þór og Stjörnunnar í haust. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Fram tyllti sér á topp Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld með naumum sigri á Stjörnunni, 26:25, í TM-höllinni í Garðabæ í háspennuleik. Írena Björk Ómarsdóttir, sem hljóp í skarðið fyrir Hafdísi Renötudóttur markvörð Fram sem er í sóttkví, varði síðasta skot leiksins frá Evu Björk Davíðsdóttur. Írena Björk sá til þess að Fram fór með bæði stigin í farteskinu.


Fram er með 13 stig eftir átta leiki og er stigi á undan Val sem á leik til góða á morgun við Aftureldingu. Stjarnan er sem fyrr í sjötta sæti með fjögur stig, þremur á eftir HK sem er í fimmta sæti.


Stjarnan var sterkari fyrstu 20 mínútur leiksins í kvöld en tíu mínútna markalaus kafli fyrir lok hálfleiksins varð þess valdandi að Fram sneri við taflinu og skoraði sex mörk í röð. Framarar voru yfir, 14:11 í hálfleik.


Svipað var upp á teningnum í síðari hálfleik. Stjarnan lék af krafti og var með yfirhöndina. Framliðinu gekk sem fyrr illa í uppstilltum leik. Heimaliðið náði þriggja marka forskoti eins og í fyrri hálfleik. Fram svaraði fyrir eins og í þeim fyrri. Með því að fara yfir í 5/1 vörn og draga þar með beittustu tennurnar úr Stjörnuliðinu.


Stjarnan getur vafalaust byggt eitthvað á þessum leik þar sem liðið var svo nálægt stigi eða stigum. Helena Rut Örvarsdóttir sýndi að hún getur enn þrumað á markið og Darija Zecevic var frábær í markinu og hafði nærri því riðið baggamuninn fyrir liðið.


Framliðið var vafalaust fegið að komast með bæði stigin í burtu með sér. Karen Knútsdóttir fór á kostum í vörn sem sókn og bar uppi leik liðsins.


Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 8, Stefanía Theodórsdóttir 5, Eva Björk Davíðsdóttir 5/3, Lena Margrét Valdimarsdóttir 3, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 2, Katla María Magnúsdóttir 1, Elena Elísabet Birgisdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 20, 45,5%.
Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 10/5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 6, Emma Olsson 5, Karen Knútsdóttir 2, Hildur Þorgeirsdóttir 2, Harpa María Friðgeirsdóttir 1.
Varin skot: Írena Björk Ómarsdóttir 10, 29,4%.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild kvenna er að finna hér.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -