- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“

Eftirsóttir leikmenn léku með landsliðinu, sem lagði Svía að velli í Bratislava á HM í Tékkóslóvakíu 1964, 12:10. Aftari röð frá vinstri: Ragnar Jónsson, FH, Einar Sigurðsson, FH, Hörður Kristinsson, Ármanni, Gunnlaugur Hjálmarsson, ÍR, Ingólfur Óskarsson, Fram, Birgir Björnsson, FH og Karl G. Beneriktsson, Fram, þjálfari. Fremri röð: Guðjón Jónsson, Fram, Örn Hallsteinsson, FH, Hjalti Einarsson, FH, Guðmundur Gústafsson, Þrótti, Karl Jóhannsson, KR og Sigurður Einarsson, Fram.
- Auglýsing -

Áður en við förum á mikið flakk um Þýskaland á slóðir íslenskra landsliðsmanna í handknattleik, skulum við rifja upp hvaða leikmenn fóru í „víking“ á undan Geir Hallsteinssyni, FH, sem var fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn til að spreyta sig með þýsku liði; Göppingen 1973. Tvær íslenskar konur höfðu leikið í Þýskalandi áður en Geir kom þar fram á sjónarsviðið. Þær Svana Jörgensdóttir, Ármanni, sem lék með Laim í München 1958-1961 og Liselotta Oddsdóttir, Ármanni, sem lék fyrst með Polizei Hamborg 1959 og síðar Eimbüttler Turnverband í Hamborg.

Karl vakti athygli

Til gamans má geta að þýska liðið Polizei Hamborg vildi fá Karl Jóhannsson, KR, til liðs við sig í byrjun árs 1960, eftir að Kalli hafði leikið sem lánsmaður með sínu gamla liði, Ármanni, í keppnisferð til Hamborgar og nágrennis í janúar, þar sem liðið lék 12 leiki í hraðkeppnismótum í 15 daga ferð. Karl heillaði áhorfendur með tækni sinni og snerpu. Þjóðverjar buðu Kalla þá eins árs samning, atvinnu við smíðar og ýmisleg hlunnindi. Karl hafnaði góðu boði, þar sem hann var að byggja þak yfir höfuðið með fjölskyldu sinni í Hvassaleiti.

Heim vildi fá Labba

Eftir góðan árangur Íslands í HM í Vestur-Þýskalandi 1961, þar sem landsliðið hafnaði í sjötta sæti, vildi sænska meistaraliðið Heim frá Gautaborg fá Gunnlaug Hjálmarsson, ÍR, til liðs við sig. Labbi vakti athygli fyrir skothörku sína og var hann einn af markahæstu leikmönnum HM, með 22 mörk.

Þegar ljóst var að Labbi yrði að vera búsettur í Svíþjóð í minnst hálft ár, til að fá rétt til að leika í efstu deild; „Allsvenskan“, missti Labbi áhugann. „Ég var ekki tilbúinn að vera svo lengi í Svíþjóð, án þess að fá tækifæri að leika,“ sagði Gunnlaugur.

Ingólfur fyrstur í „víking!“

Ingólfur Arnarsson kom til Íslands árið 874 og var fyrstur til að nema hér land. Nafni hans (Ingólfur) Óskarsson, Fram, var aftur á móti fyrstur íslenskra handknattleiksmanna til að halda í „víking!“ og herja í útlöndum, 1.090 árum síðar. Eftir HM í Tékkóslóvakíu 1964, þar sem Ingólfur átti stóran þátt í sigri á Svíum í Bratislava, 12:10, vildu félög í Svíþjóð fá hann til liðs við sig. Eins og áður urðu leikmenn að vera búsettir í Svíþjóð í minnst hálft ár, til að fá rétt til að leika í „Allsvenskan“. Þær reglur voru ekki um keppni í 2. deild. Það nýtti liðið Malmberget frá Gallevara í Norður-Svíþjóð sér og fékk Ingólf til sín. Ingólfur vakti strax mikla athygli fyrir skothörku sína og fékk hann viðurnefnið „Furan“. Svíar gefa sínu bestu íþróttamönnum viðurnefni, sem dagblöð nota jöfnum höndum. Þátt í þessu viðurnefni var eflaust hin ósænska nafnending; -fur í nafni hans: Ingól-fur var lögð til grundvallar og að auki var Ingólfur stór og sterkur eins og furutré!

  Eftir að Ingólfur hafði leikið eitt keppnistímabil með Malmberget vildu lið í „Allsvenskan“ frá hann til sín, en Ingólfur hélt tryggð við Malmberget og lék með liðinu þar til hann hélt heim á ný 1966.

Jón Hjaltalín Magnússon lék stórt hlutverk hjá Lugi í Svíþjóð

Nám og handbolti

 Á eftir Ingólfi fóru fjórir handknattleiksmenn til náms í Danmörku og Svíþjóð og léku með liðum í efstu deild. 

 * Hörður Kristinsson, Ármanni, fór í skóla í Óðinsvé (Odense), þar sem hann var við nám í iðntæknifræði 1966. Hörður gerðist leikmaður með Tarup og lék á línunni með liðinu í 1. deild. Þess má geta til gamans að Kristófer Magnússon, landsliðsmarkvörður úr FH, æfði með liðinu um tíma 1959, án þess að leika opinberan leik.

 * Jón Hjaltalín Magnússon hélt til Svíþjóðar 1969, þar sem hann hóf nám í rafmagnsverkfæði í Lundi. Jón hóf þá að leika með 2. deilarliðinu Lugi og lék stórt hlutverk þegar liðið tryggði sér sæti í „Allsvenskan“ 1971. Jón varð frægur fyrir skothörku sína og fékk viðurnefnið „fallbyssan“. Jón kom heim frá Svíþjóð 1978 og varð fallbyssa í sögu HSÍ, þegar hann lyfti handknattleiknum á Íslandi upp á hærra plan sem formaður HSÍ.

Ágúst Ögmundsson, fyrirliði Vals, og Bjarni Jónsson, Århus KFUM, fyrir leik liðanna í Laugardalshöllinni 1971, sem Valur vann 23:18. Århus KFUM lék fjóra leiki í heimsókninni.

 * Bjarni Jónsson, Val, fór í nám í byggingaverkfræði í Tækniskólanum í Árósum 1971 og gerðist leikmaður með Århus KFUM í 1. deild. Bjarni, sem var mjög öflugur varnarleikmaður og leikstjórnandi, fékk viðurnefnið „rauðhærði villimaðurinn“ fyrir sinn grimma varnarleik. Hann varð Danmerkurmeistari með liðinu 1974 og kom þá heim og gerðist leikmaður og þjálfari Þróttar, sem tryggði sér 1. deildarsæti í fyrsta skipti í 13 ár 1975, eða síðan 1962!

 * Hilmar Björnsson, KR, hætti sem landsliðsþjálfari eftir Ólympíuleikana í München 1972 og hélt til framhaldsnáms í íþróttakennslu í Stokkhólmi. Hilmar tók keppnisskóna með sér og gekk til liðs við meistaraliðið Hellas í „Allsvenskan“ og lék með liðinu í tvö keppnistímabil; 1972-1974.

Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari, lék með Hellas í Svíþjóð 1972-1974.

 Geir ætlaði til Danmerkur

* Geir Hallsteinsson, FH, var kominn í hóp bestu handknattleiksmanna heims upp úr 1970 og höfðu dönsk lið áhuga að tryggja sér krafta hans. Það stefndi allt í að Geir myndi ganga til liðs við Danmerkurmeistara Stadion frá Bröndby í Kaupmannahöfn, en hann skrifaði undir tveggja ára samning við meistarana í apríl 1973. Geir átti að vinna sem íþróttakennari, auk þess að æfa og leika með Stadion.

 Það kom heldur betur babb í bátinn, sem varð til þess að Geir fór ekki til Danmerkur. Geir varð að vera búsettur í Danmörku í hálft ár, til þess að hann yrði gjaldgengur til að keppa í efstu deild. Stadion náði ekki að fá undanþágu fyrir Geir.

Fór til Þýskalands – Hansi tók á móti honum!

Öll nótt var ekki úti, draumur Geirs um að leika utan Íslands rættist stuttu eftir að ljóst var að hann færi ekki til Stadion. Þýska meistaraliðið Göppingen hafði samband við Geir og bauð honum samning, sem hann tók; skrifaði undir eins árs samning í júní. 

Geir fór úr litlum íþróttasal í Hafnarfirði inn á stóra sviðið í Vestur-Þýskalandi og vakti leikni hans og fjölbreytni í skotum strax mikla athygli. Geir var kominn inn á svið sem Rúmeninn Hansi Schmidt, sem var orðinn þýskur ríksborgari, var búinn að marka sér sem leikmaður Gummersbach. Hansi var markakóngur Þýskalands sex ár í röð; 1967-1972. Hann tók á móti Geir á eftirminnilegan hátt. Frá því verður sagt í næsta pistli, en þá koma fleiri íslenskir landsliðsmenn við sögu, sem gerðu garðinn frægan í Vestur-Þýskalandi.

 Auf Wiedersehn

Tengt efni:

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -