- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrsti sigurinn í höfn

Sólveig Lára Kjærnested leikmaður Stjörnunnar.Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

HK vann sinn fyrsta leik í kvöld í Olísdeildinni þegar liðið lagði Stjörnuna, sem var taplaus fyrir leikinn, 25:23, í hörkuleik í TM-höllinni í Garðabæ. Frumkvæðið var HK-megin nær allan leikinn í TM-höllinni og nokkrum sinnum náði liðið þriggja marka forskoti, m.a þegar fyrri hálfleikur var á enda, 12:9.


HK skoraði fyrsta mark leiksins og gaf þar með tóninn fyrir fyrri hálfleikinn þar sem liðið var alltaf með eins til tveggja marka forskot. Framliggjandi 3/2/1 vörn liðsins var lengst af góð og réði vel við skyttur Stjörnunnar þar mest fór fyrir Helenu Rut Örvarsdóttur. Hún náði sér lítt á strik í fyrri hálfleik eftir að hafa átt stórleik gegn KA/Þór um síðustu helgi. Fleiri sóknarleikmenn Stjörnunnar virtust miður sín og náðu ekki takti í leik sinn. Það var Sólveig Lára Kjærnested sem hélt sóknarleik Stjörnunnar á floti í fyrri hálfleik.


Þegar um þrjá mínútur voru til loka fyrri hálfleiks náði HK-liðið í fyrsta sinn þriggja marka forystu, 12:9, og gafst kostur á að auka muninn í fjögur mörk skömmu síðar. Það lánaðist ekki að nýta það tækifæri né önnur á báða bóga svo að staðan var óbreytt þegar gengið var til búningsklefa að hálfnuðum leiktímanum.

Stjarnan beit frá sér


HK virtist ætla að halda uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks. Liðið hélt þriggja marka forskoti, 14:11, og átti þess kost að auka muninn. Af því varð ekki í bili a.m.k., því Stjarnan komst á bragðið. Helena Rut sýndi á sér aðrar og betri hliðar en í fyrri hálfleik og tók að raða inn mörkum auk þess sem Hildur Öder Einarsdóttir varði á köflum vel. Skyndilega var staðan orðin jöfn, 15:15 og aftur 16:16. Aftur rykkti HK frá og komst þremur mörkum yfir en Stjarnan beit frá sér á ný.


Sólveig Lára jafnaði metin, 20:20, þegar átta mínútur voru til leiksloka. Hanna Guðrún Stefánsdóttir kom Stjörnunni yfir í fyrsta sinn í leiknum, 21:20, með fallegu marki þegar rúmar fimm mínútur voru eftir að leiktímanum.


HK komst yfir á ný, 23:22, með marki frá Valgerði Ýri Þorsteinsdóttur og Tinna Sól Björgvinsdóttir skoraði 24. mark HK, 24:22, 70 sekúndur fyrir leikslok, eftir að Stjarnan hafði misst boltann tvær sóknir í röð og tapað frumkvæðinu sem liðið virtist vera að ná um skeið á lokakaflanum.
Eva Björk Davíðsdóttir skoraði 23. mark Stjörnunnar þegar rúm hálf mínúta var óleikin af leiknum. HK hóf sókn, tók leikhlé þegar 16 sekúndur voru eftir, verandi marki yfir. Upp úr lokasókninni skoraði Valgerður Ýr 25. mark HK og gulltryggði fyrsta sigur HK.


Helena Rut var markahæst hjá Stjörnunni með átta mörk. Sólveig Lára var næst með sjö mörk og Eva Björk Davíðsdóttir skoraði þrisvar, eingöngu úr vítaköstum.
Díana Kristín Sigmarsdóttir og Valgerður Ýr Þorsteinsdótir skoruðu sex mörk hvor fyrir HK og voru markahæstar. Sigríður Hauksdóttir var næst með fimm mörk..

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -