- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gísli lék vel þegar titilvörnin hófst – Viktor vann í Moskvu

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Magdeburg. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

Íslendingaliðið GOG og SC Magdeburg hófu keppni í Evrópudeildinni í handknattleik karla í kvöld og byrjuðu þau bæði með glæsibrag. Viktor Gísli Hallgrímsson og samherjar í GOG frá Fjóni unnu Medvedi í Moskvu með sjö marka mun í B-riðli, 39:32, á sama tíma og Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómari Ingi og félagar í SC Magdeburg unnu sannfærandi sigur á meisturunum í Slóveníu, Gorenje Velenje, 31:27, í Slóveníu.


Gísli Þorgeir Kristjánsson var allt í öllu hjá Magdeburg í leiknum í Slóveníu en liðin eru í C-riðli. Hann skoraði m.a. fjögur mörk í fjórum skotum og lagði upp fleiri mörk fyrir samherja sína. Ómar Ingi Magnússon kom lítið sem ekkert við sögu í leiknum. Magdeburg var marki undir í hálfleik, 14:13.


Magdeburg á titil að verja í Evrópudeildinni eftir glæsilegan sigur í deildinni í vor.
Viktor Gísli stóð nærri því allan leikinn í marki GOG í Moskvu í kvöld. Hann stóð svo sannarlega fyrir sínu og varði 10 skot, 33%.


Þegar þetta er ritað er nýlega hafinn leikur Lemgo, sem Bjarki Már Elísson leikur með, og Benfica í B-riðli. Kristján Örn Kristjánsson og félagar í franska liðinu PAUC eru að eiga við liðsmenn Nexe frá Króatíu á heimavelli í C-riðli auk þess sem lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Kadetten Schaffhausen frá Sviss eru að eiga í höggi við Sporting í Lissabon en liðin eiga sæti í D-riðli.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -