- Auglýsing -
- Auglýsing -

Grótta skorar á HK-inga

Fagnað sæti í úrslitum umspilsins eftir sigur á ÍR í oddaleik í kvöld. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Grótta mætir HK í úrslitum umspilsins um sæti í Olísdeild kvenna í handknattleik. Það varð staðfest þegar Grótta vann ÍR, 26:19, í oddaleik liðanna í undanúrslitum í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. Fyrsta viðureign HK og Gróttu fer fram í Kórnum á laugardaginn.

Anna Lára Davíðsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Gróttu í kvöld. Mynd/Eyjólfur Garðarsson


Fyrri viðureignir Gróttu og ÍR í vetur hafa verið jafnar, ekki síst leikirnir í undanúrslitunum. Annað var upp á teningnum í kvöld í Hertzhöllinnni. Grótta var mun sterkari svo að segja allan leikinn.

ÍR-ingar byrjuðu leikinn betur og skoruðu þrjú af fyrstu fjórum mörkunum áður en Grótta kom betra skipulagi á varnarleik sinn. Með betri varnarleik fékk Gróttuliðið hraðaupphlaup sem lögðu grunninn að fjögurra marka forskoti sem liðið var með eftir 20 mínútur, 9:5. ÍR-ingar komu til baka og náðu að minnka muninn í tvö mörk, 10:8 og 11:9, áður en Gróttukonur áttu síðasta orðið í hálfleiknum, 12:9.

Ólöf María Hlynsdóttir var markahæst eins og stundum áður hjá ÍR. Hún skoraði fimm mörk. Mynd/Eyjólfur Garðarsson


Grótta náði fimm marka forskoti snemma í síðari hálfleik, 17:12. ÍR-ingar þurftu að hafa meira fyrir hverju marki sínu en Gróttukonur og róður var erfiður. Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson, þjálfari ÍR, tók síðasta leikhléið sitt þegar 13 mínútur voru til leiksloka og hans lið var sjö mörkum undir, 22:15. Munurinn átti eftir að verða meiri, allt að tíu mörk. Til að gera illt verra fyrir ÍR-inga þá varði Soffía Steingrímsdóttir afar vel í marki Gróttu.

Soffía Steingrímsdóttir var í essinu sínu í marki Gróttu í kvöld. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Mörk Gróttu: Tinna Valgerður Gísladóttir 6, Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 4, Rut Bernódusdóttir 4, Anna Lára Davíðsdóttir 3, Steinunn Guðjónsdóttir 3, Ágústa Huld Gunnarsdóttir 2.

Mörk ÍR: Ólöf Marín Hlynsdóttir 5, Stefanía Ósk Hafberg 4, Hildur María Leifsdóttir 3, Guðrún Maryam Rayadh 2, María Leifsdóttir 2, Auður Margrét Pálsdóttir 1, Matthildur Lilja Jónsdóttir 1, Sylvía Jónsdóttir 1.

Eins og vant er lét Eyjólfur Garðarsson sig ekki vanta á Gróttuleik í Hertzhöllinni í kvöld. Myndaalbúm hans frá leiknum er hægt að skoða hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -