- Auglýsing -
- Auglýsing -

Handvömm á ritaraborði – KA/Þór skoraði 26 en er með skráð 27 mörk og vann

Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

Mistök voru gerð á ritaraborðinu í TM-höllinni í dag í leik Stjörnunnar og KA/Þórs í Olísdeild kvenna sem urðu þess valdandi að KA/Þór vann leikinn, 27:26, þrátt fyrir að hafa skorað 26 mörk í leiknum. Fullvíst má telja að þessi mistök dragi dilk á eftir sér.


Fyrir handvömm var marki bætt á KA/Þór undir lok fyrri hálfleiks þegar Stjarnan skoraði sitt 12. mark og staðan þar með orðin 17:12, KA/Þór í vil. Markið sem Thelma Sif Sófusdóttir skoraði fyrir Stjörnuna var fyrst skráð á leikklukkuna á lið KA/Þórs en síðan réttilega skráð á Stjörnuna. Um leið gleymdist að lagfæra markaskorið á KA/Þór og færa niður í 17 úr 18. Þar af leiðandi var staðan 18:12 samkvæmt markatöflunni en átti að vera 17:12.


Þessi ranga skráning marksins var ekki leiðrétt einhverra hluta vegna og því skoraði KA/Þór 26 mörk í leiknum en ekki 27 eins og skráð er í mótakerfi HSÍ. Handbolta.is hefur ekki borist afrit af leikskýrslu. Hún er heldur ekki skráð inn hjá HSÍ í kvöld. Aðeins úrslit leiksins, 26:27, fyrir KA/Þór er þar að finna. Vegna þess að afrit af leikskýrslu hefur ekki skilað sér er ekki hægt að fullyrða að dómarar leiksins, Magnús Kári Jónsson og Svavar Ólafur Pétursson, hafi skrifað undir ranga skýrslu en dómarar bera ábyrgð á að skýrsla sé rétt útfyllt. Enginn eftirlitsmaður var á leiknum.


Rétt niðurstaðan leiksins er, 26:26, en ekki 27:26 fyrir KA/Þór eins og gefið var upp í leikslok og flestir virtust í góðri trú um. M.a. eru úrslitin 27:26 hjá tölfræðiveitunni HBStatz. Þar er reyndar skráð mark á Ásdísi Guðmundsdóttur á 22. mínútu sem ekki sést á upptöku frá leiknum.


Handbolti.is var á leiknum í TM-höllinni í dag. Þegar heim var komið og farið var að bera saman bókhaldið og opinberu tölurnar gekk ekki allt upp og mark virtist vanta. Þess vegna var brugðið á það ráð að fara yfir upptöku af leiknum sem er að finna á 210.tv og skrá niður mörkin í leiknum. Þá kemur í ljós að KA/Þór skoraði 17 mörk í fyrri hálfleik en ekki 18 eins og skráð var á markatöfluna Stjarnan skorar 12 mörk í fyrri hálfleik og 14 í síðari hálfleik en KA/Þór níu.


Gangur fyrri hálfleiks í tölum skráð niður samkvæmt upptöku af 210tv. Mörk Stjörnunnar eru vinstra megin en KA/Þórs til hægri.
0:1 Rut
Helena 1:1
1:2 Hulda
1:3 Arna
Helena 2:3
2:4 Aldís
Anna 3:4
Eva 4:4
4:5 Rut
Hanna 5:5
5:6 Rakel
5:7 Anna
5:8 Rakel
Helena 6:8
6:9 Hulda
6:10 Hulda
Helena 7:10
7:11 Anna
7:12 Rakel
Eva 8:12
8:13 Rut
Eva 9:13
9:14 Aldís
9:15 Hulda
9:16 Rut
Helena 10:16
Sólveig 11:16
11:17 Hulda
Thelma 12:17

Uppfært klukkan 08.55 á sunnudagsmorgni:

Handbolta.is barst eftirfarandi athugasemd frá HBStatz vegna ofangreindrar fréttar:

“Aðili HBStatz var með skráða stöðuna 12-17 í hálfleik, en marki var bætt við KA/Þór í kerfinu eftir að hafa rætt við ritaraborð og dómara sem töldu stöðuna vera 12-18.”

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -