- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukar deildarmeistarar í þrettánda sinn – myndskeið

Deildarmeistarar Hauka taka þátt í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Haukar urðu í kvöld deildarmeistarar í Olísdeild karla eftir sigur á grönnum sínum í FH, 34:26, í 20. umferð deildarinnar í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Enn eru tvær umferðir eftir og Haukar hafa 35 stig. Ekkert lið getur héðan af skotið Haukum ref fyrir rass. FH er í öðru sæti með 26 stig en á þrjá leiki eftir og stendur auk þess höllum fæti í innbyrðis leikjum liðanna.


Þetta erí 13. sinn sem Haukar verða deildarmeistarar frá árinu 1992 að fyrst var keppt um titilinn um leið og tekin var upp úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.

Haukar eru svo sannarlega vel að titlinum komnir. Þeir hafa verið með forystu í Olísdeildinni frá upphafi og leikið liða jafn best á þessu sérstaka keppnistímabili sem er langt komið.


Haukar voru með tögl og hagldir í leiknum í kvöld og voru komnir með fimm marka forskot þegar fyrri hálfleikur var úti, 17:12. Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum í marki Hauka meðan kollegar hans hinum megin vallarins voru daufir. Vörn Hauka var ennfremur öflug.


Áfram jókst munurinn á milli liðanna í síðari hálfleik. Þegar innan við tíu mínútur voru til leiksloka var forskot Hauka 12 mörk, 33:21. Haukar nánast niðurlægðu FH-inga á tímabili þegar þeir yfirspiluðu þá hvað eftir annað.


Sigurinn var ekki án áfalla fyrir Hauka. Geir Guðmundsson og Ólafur Ægir Ólafsson meiddust báðir á hnjám og voru komnir með stóra ísmolapoka límda við hné sín góðum tíu mínútum áður en leiktíminn var úti. Ekki er útlokað að meiðsli Geirs geti dregið dilk á eftir sér en hann virtist mjög þjáður um skeið. Til viðbótar fékk Darri Aronsson rautt spjald um miðjan fyrri hálfleik fyrir leikbrot. Óvíst er þó að það skili sér í leikbanni. Darri var að leika í fyrsta sinn með Haukum síðan hann meiddist á hné gegn KA 25. febrúar.

Mörk Hauka: Stefán Raf Sigurmansson 5/3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 5, Tjörvi Þorgeirsson 4, Adam Haukur Baumruk 3, Orri Freyr Þorkelsson 3, Geir Guðmundsson 3, Halldór Ingi Jónasson 3, Darri Aronsson 2, Þráinn Orri Jónsson 1, Heimir Óli Heimisson 1, Ati Már Báruson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16, 42,1% – Andri Sigmarsson Scheving 2, 40%.
Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 8/4, Egill Magnússon 4, Einar Örn Sindrason 3, Leonharð Þorgeir Harðarson 3, Benedikt Elvar Skarphéðinsson 3, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Eiríkur Guðni Þórarinsson 1, Jón Bjarni Ólafsson 1, Arnar Freyr Ársælsson 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 4, 14,3% – Phil Döhler 1 10%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -