Haukar stungu sér fram úr á síðustu mínútunum

Brynjólfur Snær Brynjólfsson skoraði níu mörk fyrir Hauka í TM-höllinni í kvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Haukar halda áfram að vera við hlið FH í efsta sæti Olísdeildar karla í handknattleik. Þeir unnu Stjörnuna með fjögurra mark mun, 33:29, í TM-höllinni. Úrslitin réðust á síðustu einu og hálfu mínútu leiksins en fram til þess tíma hafði verið jafnt á öllum tölum síðan í hálfleik þegar staðan var, 13:13.


Haukar hafa þar með 22 stig eins og FH sem vann HK örugglega í Kaplakrika í kvöld, 33:24. Stjarnan er fjórum stigum á eftir í fjórða sæti
Sveiflur voru í leik liðanna í TM-höllinni í kvöld. Stjarnan var sterkari framan af en Haukar unnu sig inn í leikinn áður en lokakaflinn var Stjörnumanna.


Markvarslan var mikið betri hjá Stjörnunni í fyrri hálfleik en hjá Haukum. Þann mun tókst Stjörnumönnum ekki að færa sér í nyt.


Sem fyrr segir var síðari hálfleikur jafn og hálfri annarri mínútu fyrir leikslok hefðu margir e.t.v. veðjað á jafntefli. Einnig var meiri hraði í leik liðanna í síðari hálfleik.

Mikilvægar markvörslur tvær skiptu máli og tvö örugg vítaköst Brynjólfs Snæs Brynjólfssonar skiptu miklu máli fyrir Hauka á lokakaflanum.

Talsvert af mönnum fjarverandi

Bæði lið söknuðu margra manna. Þórður Tandri Konráðsson, Starri Friðriksson og Hafþór Már Vignisson voru ekki í leikmannahópi Stjörnunnar. Eftir því sem næst verður komist eru þeir allir í glímu við kórónuveiruna. Sverrir Eyjólfsson er frá vegna bakmeiðsla. Adam Thorstensen, markvörður, er úr leik eftir að hafa fengið höfuðhögg nokkrum vikum fyrir áramót.

Stjarnan var ekki með ekta línumann að þessu sinni.

Aron var fjarri góðu gamni

Aron Kristjánsson þjálfari Hauka fylgdist með leiknum heiman frá sér þar sem hann beið einnig eftir niðurstöðu úr PCR prófi. Aron er nýlega kominn til landsins eftir að hafa stýrt landsliði Barein til silfurverðlauna á Asíumeistaramótinu sem fram fór í Sádi Arabíu. Einar Jónsson og Björgvin Þór Rúnarsson voru við stjórnvölinn hjá Haukum. Einar er aðstoðarmaður Arons en Björgvin þjálfar ungmennaliðið karla sem leikur í Grill66-deildinni.


Hornamennirnir Stefán Rafn Sigurmannsson og Jón Karl Einarsson eru frá keppni vegna meiðsla eins og línumaðurinn Þráinn Orri Jónsson. Sá síðarnefndi meiddist á hné í landsleik gegn Noregi á EM. Hægri hornamaðurinn Halldór Ingi Jónasson var einnig fjarverandi. Sat í stúkunni og fylgdist með leiknum.


Heimir Óli Heimisson slapp úr einangrun í hádeginu í dag og byrjaði leikinn í kvöld. Hann kom hinsvegar öflugur inn í leikinn þegar á fyrri hálfleik leið.

Fljótur að stimpla sig inn

Ihor Kopyshynskyi sem kom til Hauka á dögunum var ekki lengi að stimpla sig inn í leikinn í kvöld. Hann skoraði tvö fyrstu mörk Hauka. Kopyshynskyi skoraði síðast í Olísdeildinni 27. maí á síðasta ári með Þór Akureyri í leik á móti KA í KA-heimilinu.


Mörk Stjörnunnar: Leó Snær Pétursson 9/4, Björgvin Þór Hólmgeirsson 7, Tandri Már Konráðsson 6, Dagur Gautason 4, Pétur Árni Hauksson 1, Brynjar Hólm Grétarsson 1, Gunnar Steinn Jónsson 1.
Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 12, 36,4% – Brynjar Darri Baldursson 6/1, 42,9% – Sigurður Dan Óskarsson 0.

Mörk Hauka: Brynjólfur Snær Brynjólfsson 9/6, Heimir Óli Heimisson 6, Darri Aronsson 4, Ihor Kopyshynskyi 3, Guðmundur Bragi Ástþórsson 3, Adam Haukur Baumruk 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 2, Atli Már Báruson 1, Aron Rafn Eðvðarsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 9, 33,3% – Stefán Huldar Stefánsson 2, 16,7%.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Stöðu og næstu leiki í Olísdeild karla er að finna hér.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -