- Auglýsing -

Hefur verið draumur síðan ég man eftir mér

Darri Aronsson í sínum fyrsta A-landsleik á ferlinum, gegn Króötum á EM í janúar. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Mjög spennandi áfangi er í höfn,“ sagði Darri Aronsson handknattleiksmaður hjá Haukum glaður í bragði þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið rétt fyrir hádegið eftir að franska handknattleiksliðið US Ivry í París staðfesti að það hafi gert þriggja ára samning við hinn 22 ára gamla Hafnfirðing. Samningurinn tekur gildi í sumar.


„Það hefur verið draumur síðan ég man eftir mér að leika sem atvinnumaður í Evrópu,“ sagði Darri ennfremur sem fetar þar með í fótspor foreldra sinna, Huldu Bjarnadóttur og Arons Kristjánssonar, sem léku ytra sem atvinnumenn á sínum yngri árum. „Það er mikill heiður fyrir mig að stiga fyrstu skrefin á atvinnumannaferlinum í frönsku úrvalsdeildinni með flottu félagi. Ég hlakka mikið til að takast á við það.“

Útlit er fyrir að þrír íslenskir handknattleiksmenn leiki með félagsliðum í frönsku 1. deildinni á næsta ári. Auk Darra verður Ólafur Andrés Guðmundsson áfram hjá Montpellier og Kristján Örn Kristjánsson, Donni, með Pays d'Aix Université Club Handball, PAUC.

Var í höfn á EM

Darri segir að samningurinn við US Ivry hafi nánast verið í höfn þegar hann var kallaður inn í íslenska landsliðið á Evrópumótinu í janúar. „Samkomulag var í höfn á milli mín og félagsins um viku áður en ég fór til Ungverjalands.“

Átta sinnum franskur meistari

US Ivry er gamalt stórveldi í frönskum handknattleik með bækistöðvar í París. Átta sinnum hefur lið félagsins unnið franska meistaratitilinn, síðast 2007, og einu sinni bikarinn. Ivry féll úr 1. deild á síðasta ári en hefur nú um stundir yfirburðastöðu í 2. deildinnni, 21 sigur af 22 mögulegum og er þar af leiðandi á hraðferð upp í efstu deild á nýjan leik.

Með núverandi og fyrrverandi samherjum hjá Haukum, Þráinn Orri Jónsson, Darri Aronsson og Orri Freyr Þorkelsson. Einnig sést í Sigvalda Björn Guðjónsson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Með ríka sögu

„Þetta er gamalt stórlið með mikla hefð á bak við sig. Ég er mjög hrifinn af því að koma í félag sem hefur ríka sögu. Innanborðs eru menn sem vita vel hvað bíður þeirra. Framundan hjá Ivry er að taka næsta skref fram á við og komast í hóp fremstu liða Frakklands. Ég er fullur eftirvæntingar að fá tækifæri til þess að taka þátt í að stíga skrefið með liðinu,“ sagði Darri og bætti við.

Ætlar Darra stórt hlutverk

„Þjálfari Ivry [innskot – Sébastien Quintallet] hefur mikla trú á mér og ætlar mér ákveðið hlutverk. Sú staðreynd skiptir mig meira máli en að komast að hjá liði sem er hærra skrifað og vera kannski í aukahlutverki. Það hefur mikið að segja að komast að hjá liði sem hefur trú á mínum hæfileikum svo ég geti haldið áfram á þeirri leið að bæta mig sem handboltamaður.“

Ragnar Óskarsson er eini Íslendingurinn sem hefur leikið með US Ivry. Hann kom til félagsins 2005 frá Skjern í Danmörku. Ragnar lék með US Ivry í tvö ár og varð franskur meistari með liðinu vorið 2007. Aron Kristjánsson, faðir Darra, var þjálfari Skjern 2005 þegar Ragnar var seldur frá Skjern til Ivry.

Kann ekkert í frönsku

„Ég kann ekkert í frönsku og verð að vera grimmur að ná grunni í málinu áður en ég flyt út. Ætli að maður fari ekki á sumarnámskeið eftir að út verður komið. Ég verð að minnsta kosti að verða fljótur að ná helstu orðunum í handboltamálinu.

Ég hlakka líka til að búa í París sem er frábær borg. Mamma og pabbi eru einnig mjög ánægð því það er beint flug og einfalt að koma í heimsókn,“ sagði Darri himinsæll með lífið.


Darri er samningsbundinn Haukum til tveggja næstu ára en til þess að fá hann strax í sumar til Parísar þá kaupir franska liðið Darra frá Haukum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -