- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Bandaríska liðið er sem rjúkandi rúst vegna smita

- Auglýsing -

Ástandið innan bandaríska landsliðsins í handknattleik karla er vægast sagt hræðilegt. Átján af 30 manna leikmannahópi eru smitað af kórónuveirunni og verða í sóttkví á næstunni í Danmörku þar sem landsliðið hefur verið æfingar síðustu daga. Norðmaðurinn Robert Hedin, landsliðsþjálfari Bandríkjanna, staðfesti þetta í samtali við Aftonposten í morgun.

Hedin segir að útlit sé fyrir að 12 leikmenn úr hópnum hafi sloppið en alls fór hann með 30 leikmenn til æfinga í Danmörku. Þessir tólf fara til Kaíró í dag þar sem þeir fara í skimun á flugvellinum auk þess sem þeir verða að hafa meðferðis vottað skjal um að hafa ekki greinst með veiruna á undanförnum 72 klukkustundum.


„Við stöndum uppi nánast án varnarmanna og með aðeins einn markvörð í þessum 12 manna hóp,“ segir Hedin við Aftonposten. Hann sjálfur verður eftir í Danmörku.

Kom í opna skjöldu

Hedin segir að bandaríski hópurinn hafi notast við hitamælingar og skyndipróf á síðustu dögum. Þau hafi öll reynst neikvæð og þessvegna kom niðurstaðan í opna skjöldu. Hinsvegar hafi hópurinn farið í hefðbundið veirupróf í gær og þá varð þetta niðurstaðan, átján sýktir. Þeir taka örugglega ekki þátt í mótinu. Hvenær Hedin sjálfur mætir til leiks er óvíst. Hann er ekki smitaður en þarf að gangast undir fleiri próf áður en hann heldur til Egyptalands.


Að sögn Hedins leikur grunur á að smit hafi borist með leikmanni sem kom inn í hópinn á dögunum frá Bandaríkjunum.


Bandaríkin fengu sérstakt keppnisleyfi frá Alþjóða handknattleikssambandinu, IHF, til þess að keppa á móti, svokallað „wild card“, sem stjórnendur IHF hafa í vasanum og hafa úthlutað einni þjóð fyrir HM undanfarin ár.

Fyrsta varaþjóð á HM


Norður-Makedónía er fyrsta varaþjóð inn á HM. Afar ósennilegt er talið að kallað verði í Norður-Makedóníumenn á elleftu stundu til þátttöku í mótinu. Fyrirvarinn er einfaldlega of stuttur. Þess í stað verði látið reyna á það sem eftir er af bandaríska landsliðinu sleppi það í gegnum veirupróf við komuna til Kaíró.


Fyrsti leikur Bandaríkjanna á HM verður gegn Austurríki á fimmtudaginn. Á laugardag á liðið að mæta norska landsliðinu og á mánudag Frökkum.
Rúnar Kárason og félagar hans í danska úrvalsdeildarliðinu Ribe-Esbjeg léku gegn bandaríska landsliðinu í æfingaleik á föstudaginn. Rúnari var sannarlega brugðið við tíðindi morgunsins eins og sjá má af færslu hans á Twitter í morgun.

Greint var frá því á vef Jyllands-Posten í Danmörku fyrir stundu að einn leikmaður Ribe-Esbjerg hafi greinst smitaður og nú hafi allt liðið verið sett í sóttkví og til skimunnar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -