- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Danir eru á leið í fremstu röð á nýjan leik

Fagna Jesper Jensen og leikmenn danska landsliðsins á EM í fyrra. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Heimsmeistaramót kvenna í handknattleik hefst á Spáni miðvikudaginn 1. desember og stendur til 19. sama mánaðar. Í upphafi verður leikið í átta fjögurra liða riðlum. Fram að mótinu fer handbolti.is yfir hvern riðil keppninnar.


F-riðill
Þátttökuþjóðir: Danmörk, Kongó, Suður Kórea, Túnis.


Þær þjóðir sem hafa marga hildi háð síðustu tvo áratugi, Danmörk og Suður Kórea, mætast í þessum riðli ásamt landsliðum tveggja Afríkuþjóða, Túnis og Kongó, sem munu líklega berjast innbyrðis um að komast áfram í milliriðil.


Danmörk og Suður Kórea voru á meðal bestu þjóða heims í handknattleik kvenna á árunum 1996 til 2005. Landslið þjóðanna mættust til að mynda tvisvar sinnum í úrslitum Ólympíuleika, í Atlanta 1996 og í Aþenu 2004. Í bæði skiptin dugðu 60 mínútur ekki til þess að knýja fram sigurvegara. Danmörk hafði betur 1996, 37-33, eftir framlengdan leik og endurtók leikinn 2004, 38-36, eftir vítakastkeppni.


Danska liðið hefur yfirleitt haft betur í innbyrðis leikjum gegn Suður Kóreu. Danir hafa unnið fimm af átta leikjum þjóðanna. Suður Kórea hefur aðeins unnið einu sinni, í riðlakeppni Ólympíuleikanna 2012. Landslið Dana og Suður Kóreubúa mættust síðast fyrir tveimur árum á HM í Japan. Leiknum lauk með jafntefli, 26-26. Stórskyttan Ryu Eun Hee skoraði níu mörk fyrir Suður Kóreu.


Danir að teljast líklegastir til þess að vinna riðilinn og bæta upp fyrir HM 2019 þegar þeir höfnuðu í þriðja sæti í riðlinum en Suður Kórea varð efst.

Kynslóð sem hungrar í árangur


Danska landsliðið er í sókn um þessar mundir. Það hafnaði í fjórða sæti á EM 2020 á heimavelli. Með taktíska snillinginn, Jasper Jensen, í stól þjálfara, ásamt kynslóð leikmanna sem hungrar í árangur, virðast Danir vera á leið í fremstu röð á ný eftir mörg mögur ár á stórmótum í handknattleik kvenna.


Dönum hefur vegnað vel gegn landsliði Túnis og unnið báða leiki þjóðanna í gegnum árin með miklum mun.

Vonast eftir árangri

Suður Kórea hefur aldrei mætt landsliði Túnis en ævinlega gengið vel gegn landsiðum frá Afríku. Leikirnir gegn Túnis og Kongó verða lykilleikir fyrir landslið Suður Kóreu á mótinu. Suður Kóreubúar vonast til þess að enda á meðal tíu efstu þegar upp verður staðið en í þeim hópi hefur liðið ekki verið síðan á HM í Kína fyrir 12 árum.


Þar sem allt útlit er fyrir að Danmörk og Suður Kórea berjist um tvö efstu sætin í riðlinum mun slagurinn standa á milli Túnis og Kongó um þriðja sæti riðilsins sem gefur sæti í millriðlum.


Túnis og Kongó hafa í gegnum tíðina háð baráttu á mörgum mótum allt aftur til 1976 þegar að Túnis hafði betur, 10-5, í úrslitaleik Afríkukeppninnar. Síðan þá hafa þjóðirnar mæst tíu sinnum og hefur Túnis unnið í sex skipti, þar af síðustu fjórar viðureignirnar.

Tengill á fyrri greinar:
A-riðillB-riðillC-riðillD-riðill, E-riðill.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -