- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Sögulegur árangur sem hitti þjóðina í hjartastað

Úrklippa úr Morgunblaðinu 1. mars 1961 þegar framundan var fyrsti leikur Íslands á HM. Mynd af íslenska hópnum t.h.
- Auglýsing -

Leikmenn voru reynslunni ríkari eftir HM 1958, sem fjallað var um hér á handbolti.is í gær. Íslenska landsliðið mætti tvíeflt til leiks á HM í Vestur-Þýskalandi þremur árum síðar þar sem unnið var afrek sem ekki var jafnað fyrr en 25 árum síðar og bætt fyrst 36 árum síðar, 6. sætið á HM 1961. Segja má að með árangri sínum 1961 hafi handboltalandsliðið hitt þjóðina í hjartastað og skipað sér þar sess sem það hefur ennþá.

Mikið var lagt í undirbúning landsliðsins fyrir HM 1961. Árin á undan var farið í æfingaferðir út fyrir landsteina.

Landslið Íslands á HM 1961
Nafn, leikir - mörk
Hjalti Einarsson 6-0
Sólmundur Jónsson 6- 0
Gunnlaugur Hjálmarsson 6-22
Einar Sigurðsson 6-4
Pétur Antonsson 6-8
Ragnar Jónsson 6-15
Birgir Björnsson 6-8
Karl Jóhannsson 6-17
Karl Benediktsson 5-1
Örn Hallsteinsson 6-5
Hermann Samúelsson 2-0
Kristján Stefánsson 5-5
Erlingur Lúðvíksson 0-0
Landsliðsþjálfari: 
Hallsteinn Hinriksson

Fyrir mótið var æft undir stjórn Hallsteins Hinrikssonar eins og þremur árum áður. Þess má til fróðleiks geta að Hallsteinn er faðir Geirs Hallsteinssonar sem síðar varð einn besti handknattleiksmaður þjóðarinnar og afi Loga sem var í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum 2008.

Æft var oft í íþróttahúsi bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli en þar var stærsti íþróttasalur landsins. Á árunum sem liðin voru frá síðasta móti hafði samstarf við Norðurlandaþjóðirnar verið aukið og margt fleira gert til þess að búa liðið betur en áður undir átökin á HM. Allt þetta skilaði sér þegar á hólminn var komið í Vestur-Þýskalandi, þó ekki í fyrsta leiknum sem tapaðist stórt, 24:13, fyrir Dönum, eftir að aðeins var þriggja marka munur í hálfleik, 9:6.

Urðu fljótt reiðir og óvinsælir

Danir kvörtuðu mjög yfir grófum leik Íslendinga eftir því sem fram kemur í endursögn Morgunblaðsins af fréttum danskra blaða eftir leikinn. „Síðustu mínúturnar var það helzta skemmtun fólksins að sjá leikmenn frændþjóðanna, sem menn héldu að væru vinir, velta hvorir öðrum. Þreyta sótti á bæði lið. Leikurinn verður ekki minnisstæður fyrir annað en að á löngum köflum minnti hann meira á slagsmál,“ sagði m.a. í frásögn Berlingske af leiknum og þar var bætt við: „Við urðum fyrir vonbrigðum með íslenzka liðið, sérstaklega með tilliti til framkomu þess á leikvelli, þeir urðu fljótt reiðir og um leið óvinsælir meðal áhorfenda, sérstaklega var þetta áberandi hjá einum sóknarleikmanni Íslendinga – og ef hann hefði slegið jafn oft og hann steytti hnefana, hefðu Danirnir sjálfsagt allir legið í valnum að leikslokum.“

Íslenska liðinu rann reiðin og það mætti Sviss í síðasta leik riðlakeppninnar og vann, 14:12, og tryggði sér þar með sæti í milliriðli ásamt Tékkum, ríkjandi heimsmeisturum Svía og Frökkum.

Mikil spenna var í leiknum við Sviss. Jafnt var í hálfleik, 7:7, en í fyrri hluta síðari hálfleiks skoruðu leikmenn Sviss þrjú mörk í röð án þess að íslenska liðinu tækist að svara. Þá tók Hjalti Einarsson, markvörður, til sinna ráða og lokaði markinu á löngum köflum. Íslenska liðið gekk á lagið og vann. Hjalti var sagður hetja leiksins í Morgunblaðinu daginn eftir en einnig þóttu Gunnlaugur Hjálmarsson, Karl Jóhannsson og Ragnar Jónsson hafa leikið vel.

Gunnlaugur jafnaði gegn Tékkum

Fyrsti leikurinn í milliriðli var við Tékka sem tapað höfðu úrslitaleiknum þremur árum áður og unnið íslenska liðið með 10 marka mun í fyrsta leik í þeirri keppni. Tékkar voru sterkari í fyrri hálfleik en íslenska liðið barðist af hörku og hleypti Tékkum aldrei langt frá sér. Staðan var 10:7, fyrir Tékka í hálfleik. Íslenska liðið jafnaði 11:11, en Tékkar náðu aftur þriggja marka forskoti, 15:12. Með mikilli seiglu og sterkum varnarleik á síðustu mínútunum tókst íslenska liðinu að jafna metin, 15:15, áður en yfir lauk og tryggja sér jafntefli. Gunnlaugur Hjálmarsson jafnaði skömmu fyrir leikslok að viðstöddum 6.000 áhorfendum í íþróttahöllinni í Stuttgart. Úrslitin vöktu mikla athygli og var talsvert um þau fjallað í norrænum fjölmiðlum.

Axel Einarsson, stjórnarmaður HSÍ, sem tapaði 25 krónum í veðmáli, þar sem hann taldi útilokað annað en Tékkar myndu vinna, sagði m.a. í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn: „Þetta er sigur sem fleytir okkur á örskammri stund yfir langan og breiðan veg þess hyldýpis sem skilur byrjandann í greininni frá þeim sem langt eru komnir. Ísl. liðið sýndi að hér á landi er handknattleikur á háu stigi þrátt fyrir vöntun á húsnæði.“

Möguleiki á verðlaunasæti

Í framhaldinu var rætt um að íslenska liðið ætti möguleika á að leika til verðlauna ef það legði Svía eða þjóðirnar skildu jafnar, en næsti leikur íslenska liðsins í keppninni var við heimsmeistara Svía. Þeir voru sagðir hræddir við íslenska „víkinga“. Þegar á hólminn var komið var reyndin önnur og Svíar unnu öruggan sigur, 18:10. Staðan var 9:3, í hálfleik. Markverðir Svía reyndust leikmönnum íslenska liðsins erfiðir í leiknum og það svo sannarlega ekki í síðasta sinn.

Leikmenn íslenska liðsins létu ekki hugfallast þrátt fyrir tap fyrir Svíum og unnu stórsigur á Frökkum í lokaumferð milliriðlakeppninnar, 20:13. Þar með varð ljóst að frændþjóðirnar Íslendingar og Danir mættust öðru sinni í mótinu, að þessu sinni í leik um fimmta sætið.

Viðureignin við Dani snerist í höndum íslenska liðsins sem hafði forystu lengi vel, m.a. 8:7, í hálfleik. Þegar 12 mínútur voru til leiksloka stefndi í íslenskan sigur, staðan var 13:9. En þá gengu heilladísirnar á band með Dönum auk þess sem sænskur dómari leiksins þótt draga taum þeirra. Danir skoruðu fimm síðustu mörkin og unnu með einu marki, 14:13.

„Ísland hefur nú unnið sér það álit í þessari grein…“

„Þessi úrslit eru fyrir Íslendinga mesti sigur sem íslenzkt flokkalið hefur hlotið. Og það sem meira er um vert, Ísland hefur nú unnið sér það álit í þessari grein, að enginn efast um að það eigi þetta sæti skilið og allir skoða íslenzka liðið fyllilega í flokki með beztu liðum heims í þessari grein,“ sagði m.a. í grein í Morgunblaðinu daginn eftir leikinn, þriðjudaginn 14. mars.

Rúmenar lögðu Tékka í framlengdum úrslitaleik, 9:8, og ríkjandi heimsmeistarar Svía máttu gera sér að góðu að fá bronsverðlaun að þessu sinni eftir sigur á V-Þýskalandi, 17:14. Fyrir utan tapið í úrslitaleiknum þá tapaði tékkneska liðið aðeins einu stigi í mótinu. Það var í jafnteflisleiknum við Íslendinga í milliriðlinum.

Gunnlaugur í heimsliðinu

Eftir keppnina var Gunnlaugur Hjálmarsson valinn í heimsliðið. Hann var fyrstur íslenskra handknattleiksmanna til að hljóta þann heiður. Hann vakti mikla athygli í keppninni og varð í 3. til 4. sæti yfir markahæstu menn með 22 mörk. Þá töldu margir að Hjalti Einarsson, markvörður, væri kominn í hóp þeirra bestu í heiminum eftir vasklega framgöngu í keppninni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -