- Auglýsing -

Hraðpróf og 500 áhorfendur á Evrópuleikjum í Eyjum

Mynd/Þóra Sif Kristinsdóttir

Undirbúningur stendur nú sem hæst í Vestmannaeyjum fyrir leiki ÍBV og gríska liðsins AEP Panorama í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna sem fram fara annað kvöld og á laugardaginn í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum.


Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV, sagði við handbolta.is í dag að von sé á gríska liðinu til Eyja í kvöld en hópurinn lenti á Keflavíkurflugvelli um miðjan daginn.

Opið lengur í hraðpróf á morgun

„Við ætlum okkur að vera með opið hús og taka við allt að 500 áhorfendum. Hraðprófsskylda verður fyrir alla áhorfendur fædda 2015 eða fyrr. Heimapróf verða ekki tekin tekin gild. Bóka þarf í hraðpróf á heilsuveru. Meðal annars verður mögulegt að fara í hraðpróf hjá HSU í Vestmannaeyjum til klukkan tvö á morgun, föstudag, og fá þar með 48 klukkustunda vottorð sem nær þá yfir báða Evrópuleikina og viðureignina hjá strákunum í Olísdeildinni á sunnudaginn,“ sagði Vilmar Þór sem er vongóður um að Eyjamenn mæti og styðji sitt lið eins og þeir eru þekktir fyrir.

Vilja halda uppi stemningu

„Við viljum gera allt til þess að halda lífi húsinu og góðri stemningu í þessum leikjum um helgina og gera þeim kleift sem vilja mæta á pallana að koma upp að því marki sem heimilt er,“ sagði Vilmar Þór.


„Leikirnir hjá kvennaliðinu gegn AEP Panorama leggjast vel í okkur. Við erum spennt fyrir þessu verkefni sem framundan sem margir hafa lagt hönd á plóg með okkur,“ sagði Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV.

Fyrri viðureign ÍBV og AEP Panorama hefst kl 18.30 á morgun föstudag en sá síðari byrjar klukkan 13 á laugardaginn.


Aðgöngumiði kostar 2.000 kr.- á leik fyrir fullorðna en 500 kr.- fyrir 6-16 ára. Hægt er kaupa helgarpassa á báða Evrópuleikina á 3.000 kr. Þann passa er að finna undir föstudagsleiknum á smáforritinu Stubbur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -