- Auglýsing -

Hver er Sigvaldi Björn?

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði 10 mörk í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur slegið í gegn með íslenska landsliðinu á EM fram til þessa og er markahæsti leikmaðurinn með 13 mörk. Einnig hefur hann verið valinn maður leiksins í báðum viðureignum Íslands til þessa.

  • Sigvaldi Björn er 27 ára gamall örvhentur hornamaður íslenska landsliðsins og pólska meistaraliðsins Łomża Vive Kielce. Hann kom til félagsins sumarið 2020 frá Elverum í Noregi þar sem hann hafði verið um tveggja ára skeið.
  • Sigvaldi Björn fer á ný til Noregs í sumar. Hann samdi í haust við norska úrvalsdeildarliðið Kolstad í Þrándheimi og verður leikmaður þess frá og með 1. júlí. Forráðamenn Kolstad ætla sér að byggja upp evrópskt handknattleiksstórveldi á næstu árum. Hafa þeir krækt í marga af bestu leikmönnum Noregs, m.a. Sandor Sagosen en einnig í Sigvalda Björn og Janus Daða Smárason.
  • Sigvaldi Björn flutti til Danmerkur með fjölskyldu sinni til Danmerkur 12 ára gamall. Hann hóf að æfa handknattleik með HK í Kópavogi á barnsaldri. Eftir nokkurra ára veru í Danmörku fluttu foreldrar Sigvalda Björns aftur til Íslands. Hann varð eftir í Danmörku og lagði stund á framhaldsnám auk þess að æfa og leika handknattleik.

  • Hann er eini leikmaður íslenska landsliðsins á EM 2022 sem hefur ekki leikið með félagi í efstu deild á Íslandi.
  • Litlu mátti muna að Sigvaldi Björn tæki þann kostinn að leika með unglingalandsliðum Danmerkur en fyrir árvekni Heimis Ríkarðsson og fleiri þá tókst að koma í veg fyrir það með því að kalla Sigvalda inn á æfingar með yngri landsliðum Íslands.
  • Sigvaldi lék með Vejle, Bjerringbro/Silkeborg en var síðan hjá Århus Håndbold um þriggja ára skeið áður en hann fluttist til Elverum sumarið 2018. Hjá Elverum átti Sigvaldi Björn afar góðu gengi að fagna og var á meðal aðsópsmestu leikmanna liðsins, jafnt í norsku úrvalsdeildinni og í Meistaradeild Evrópu. Hann varð markahæsti leikmaður Elverum á síðasta tímabili 2019/2020, jafnt í norsku deildinni sem og í Meistaradeild Evrópu.
  • Sigvaldi Björn gekk til liðs við Vive Kielce í sumarið. Kielce hefur um árabil verið sterkasta félagslið Póllands en þjálfari þess er Talant Dujshebaev.

  • Sigvaldi Björn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn norska landsliðinu 8. júní 2017. Alls hefur hann leikið 41 landsleik og skorað 99 mörk. Sigvaldi Björn tók þátt í stórmóti í fyrsta sinn fyrir þremur árum á HM í Þýskalandi og Danmörku. Síðan hefur Sigvaldi Björn átt fast sæti í íslenska landsliðinu og er að leika með á fjórða stórmótinu í röð. Alls eru stórmótaleikirnir (EM/HM) orðnir 23 og mörkin 60.
  • Yngri systkini Sigvalda Björns, Símon Michael og Elna Ólöf leika bæði með meistaraflokksliðum HK. Símon Michael hefur átt sæti í yngri landsliðum Íslands og var m.a. í U18 ára landsliðinu á EM í Króatíu í ágúst. Hann leikur í vinstra horni.
  • Elna Ólöf er línumaður og einnig afar öflugur varnarmaður. Hún var í B-landsliði Íslands sem tók þátt í æfingamóti í Tékklandi í nóvember. Einnig var Elna Ólöf í yngri landsliðum Íslands.
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -