- Auglýsing -
- Auglýsing -

Íslenska liðið fór á kostum gegn Sviss í Cheb

Sigurdans eftir sigurinn á landsliði Sviss í gærkvöld. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

A-landslið kvenna í handknattleik vann öruggan sigur á landsliði Sviss, 30:22, í annarri umferð á æfingamóti í Cheb í Tékklandi í kvöld. Íslenska liðið var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda og hleypti þeim svissnesku aldrei nærri. Í hálfleik var munurinn fimm mörk, 19:14. Sóknarleikurinn var afar góður og Elín Jóna Þorsteinsdóttir var frábær í markinu ekki síst í fyrri hálfleik er hún varði 13 skot.

Sunna Jónsdóttir skorar eftir hraðaupphlaup. Mynd/HSÍ


Síðasti leikur íslenska liðsins í mótinu verður gegn landsliði Tékka. Flautað verður til leiks klukkan 12.


Íslensku landsliðskonurnar voru ákveðnar að bæta fyrir tapið gegn Noregi í gær. Ljóst var frá upphafi að þær ætluðu sér ekkert annað en sigur. Liðið byrjaði leikinn af miklum krafti í vörn og sókn. Elín Jóna stóð vaktina af árverkni í markinu. Þegar 22 mínútur voru búnar af fyrri hálfleik var íslenska liðið komið fimm mörkum yfir.

Svissneska liðið reyndi hvað það gat til að komast inn í leikinn í upphafi seinni hálfleiks en leikmenn íslenska liðsins voru ekki á því að gefa þumlung eftir. Þjálfari Sviss tók leikhlé á 13. mínútu seinni hálfleiks, sex mörkum undir, 23:17, í þeirri von að ná að snúa við taflinu. Honum varð ekki kápan úr því klæðinu. Íslenska liðið hélt sínu striki og vann öruggan sigur.

Þórey Rósa Stefánsdóttir svífur inn úr hægra horninu og skorar eitt fimm marka sinna. Mynd/HSÍ


Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, gat dreift álagi vel á milli leikmanna íslenska liðsins að þessu sinni.


Besti maður Íslands í kvöld var kosin Thea Imani Sturludóttir.


Mörk Íslands: Sandra Erlingsdóttir 7/3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 5, Thea Imani Sturludóttir 5, Ragnheiður Júlíusdóttir 2, Andrea Jacobsen 2, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 2, Harpa Valey Gylfadóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Ásdís Guðmundsdóttir 1 Elín Jóna Þorsteinsdóttir 1.

Elín Jóna Þorsteindóttir varði 18 skot, Hafdís Renötudóttir 5.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -