- Auglýsing -

Karlandsliðið kemur saman um miðjan mars

Íslenska landsliðið í handknattleik kemur saman til æfinga hér á landi um miðjan mars. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Íslenska landsliðið í handknattleik karla kemur saman í viku æfingabúðir hér á landi frá og með 14. mars. Æfingabúðirnar verða með svipuðu sniði og í nóvember á síðasta ári. Þær þóttu takast afar vel og áttu þátt í góðum árangri landsliðsins á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í janúar. Ekki er áformað að leika æfingaleiki að þessu sinni.


Eftir því sem næst verður komist stendur til að velja í kringum 20 leikmenn til æfinganna. Landsliðshópurinn verður tilkynntur á næstu dögum og er byrjað að hafa samband við leikmenn.


Þessi vikulangi gluggi opnast vegna þess að umrædda viku fer fram fyrsta umferð umspilsleikja fyrir heimsmeistaramótið. Íslenska landsliðið mætir til leiks í aðra umferð sem fram fer fram um miðjan apríl. Í fyrstu umferð umspilsins í mars mætast m.a. Austurríkismenn og Eistlendingar. Sigurliðið mætir íslenska landsliðinu í annarri umferð umspilsins í apríl þar sem bitist verður um farseðilinn á HM í janúar á næsta ári.


Dregið verður í riðla fyrir Evrópumótið 2024 í vor og fer fyrsta og önnur umferð fram í eina landsliðsglugganum á haustmisseri keppnistímabilsins í Evrópu um mánaðarmótin október og nóvember.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -