„Kom á ferðinni og setti hann í fjær hornið

Helena Rut Örvarsdóttir og Eva Björk Davíðsdóttir léku stórt hlutverk í jafntefli Stjörnunnar í kvöld við KA/Þór. Mynd/Stjarnan

„Ég kom á ferðinni og setti hann á fjær hornið. Ég man það samt ekki alveg. Ég þarf að horfa á upptöku af lokasókninni til að rifja þetta betur upp. Þegar við byrjuðum upphlaupið hafði ég áhyggjur af því að sendingin mín á Sólveigu væri slök en sem betur fer slapp það og ég fékk boltann aftur og lét vaða á markið,“ sagði Eva Björk Davíðsdóttir, leikmaður Stjörnunnar sem var í sjöunda himni eftir að hafa skoraði jöfnunarmark liðsins, 25:25, á síðustu sekúndu gegn KA/Þór í endurteknum leik liðanna í TM-höllinni í kvöld eftir að leikur liðanna 13. febrúar var dæmdur ógildur.


Tinna Húnbjörg Einarsdóttir var hetja Stjörnunnar á lokakaflanum ásamt Evu Björk. Tinna varði skot frá Aldísi Ástu Heimisdóttur úr opnu færi þegar um 10 sekúndur voru til leiksloka. Þar með kom Tinna í veg fyrir að KA/Þór tæki bæði stigin með sér norður.


KA/Þór er áfram efst með 18 stig þegar 12 leikir eru að baki og tvær umferðir eru eftir. Fram er einnig með 18 stig og ljóst að tvær síðustu umferðirnar vera æsilega spennandi í kapphlaupinu um deildarmeistaratitilinn. Stjarnan fór upp um eitt sæti, í það fimmta, með jafnteflinu í kvöld.

Allt fór í baklás

KA/Þórsliðið var með yfirhöndina í 45 mínútur í kvöld og hafði um skeið sex marka forskot, 20:14, þegar síðari hálfleikur var svo gott sem hálfnaður. Eftir það fór allt í baklás. Vörnin tók að leka og sóknarleikurinn gekk á tíðum ekki sem skildi. Liðið fékk þó tækifæri til að tryggja sér sigurinn en allt kom fyrir ekki.


„Það er geggjað að spila svo leik með þeirri liðsheild sem er í Stjörnuliðinu og ná að koma svona hressilega til baka,“ sagði Eva Björk sem fór á kostum í leiknum og skoraði 11 mörk að jöfnunarmarkinu meðtöldu.


„Þótt við værum komnar fimm mörkum undir þá var vonin og baráttan alltaf fyrir hendi. Það þarf þolinmæði til að vinna upp svona gott forskot. Við höfðum svo sannarlega yfir að ráða bæði þolinmæði og baráttu að þessu sinni. Það var frábært að okkur tókst að ná öðru stiginu. Kannski átti leikurinn bara alltaf að fara svona,“ sagði Eva Björk og vísar væntanlega til þess að hvort lið skoraði 26 mörk í leik liðanna í TM-höllinni 13. febrúar þótt fyrir fyrir mistök hafi einu marki of mikið verið bókað á KA/Þór í þeirri viðureign.


Eva Björk segir að undanfarnar vikur hafi verið erfiðar eftir enn eitt hléið í deildinni. „Af þeim sökum er gott fyrir okkur að mæta til leiks með þessum karakter sem við sýndum núna. Við munum byggja á þessu fyrir tvo síðustu leikina. Það er frábært að ná jafntefli við jafn sterkt lið og KA/Þór er,“ sagði Eva Björk Davíðsdóttir, leikmaður Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í TM-höllinni í kvöld.


Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 11/3, Helena Rut Örvarsdóttir 5, Anna Karen Hansdóttir 3, Elísabet Gunnarsdóttir 2, Sólveig Lára Kjærnested 1, Kartín Tinna Jensdóttir 1, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 1.
Varin skot: Tinna Húnbjörg Einarsdóttir 7, 30,4% – Heiða Ingólfsdóttir 2, 20%.
Mörk KA/Þórs: Ásdís Guðmundsdóttir 5/3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Rakel Sara Elvarsdóttir 3, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 3/1, Martha Hermannsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 15, 39,5% – Sunna Guðrún Pétursdóttir 0.

Staðan í Olísdeild kvenna.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -