- Auglýsing -
- Auglýsing -

Langar ekki að festast fyrir aftan stórstjörnu

Grétar Ari Guðjónsson, markvörður Sélestat í Frakklandi. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Ég er mjög ánægður með að hafa verið kallaður inn í hópinn. Vonandi undirstrikar það þá staðreynd að ég hef tekið framförum,“ sagði Grétar Ari Guðjónsson, markvörður franska liðsins Cavigal Nice Handball, þegar handbolti.is hitti hann að máli á æfingu landsliðsins í handknattleik í vikunni.

Grétar Ari var valinn í æfingahóp landsliðsins sem æfir hér á landi þessa dagana en a.m.k. þrjú ár eru liðin síðan síðast var óskað eftir Hafnfirðingnum í æfingahóp landsliðsins.

Ekki hægt að gleyma okkur

„Við erum svo fáir íslensku markverðirnir sem leika utan Íslands að það er ekki hægt að gleyma okkur,“ svaraði Grétar Ari spurður hvort hann hafi talið sig vera gleymdan þegar kom að vali markvarða í landsliðið.

Grétar Ari Guðjónsson er 25 ára gamall. Hann lék upp yngri flokka Hauka og var einnig um skeið með meistaraflokki félagsins, síðast keppnistímabilið 2019/2020. Einnig var hann markvörður ÍR og Selfoss sem lánsmaður frá Haukum.
Grétar Ari var markvörður U18 ára landsliðsins sem vann til bronsverðlauna á HM 2015. Einnig lék hann með öðrum yngri landsliðum Íslands. Grétar Ari lék sjö A-landsleiki frá 2016 til 2018.

Hefur haldið sínu striki

„Þeir markverðir sem hafa verið valdir í landsliðið á undanförunum árum hafa unnið fyrir því að mínu mati því þótt vissulega vilji ég alltaf vera með. Ég hef bara haldið mínu striki og reynt að gera mitt besta til að taka framförum með von um að það opni möguleikana fyrir mér einn góðan veðurdag,” sagði Grétar Ari sem var með allra bestu markvörðum frönsku 2. deildarinnar á síðasta tímabili og varð m.a. flest skot allra og var annar þegar litið var til hlutfallsmarkvörslu.


Grétar Ari hefur tekið upp þráðinn á þeirri leiktíð sem nú stendur yfir og mætt til leiks af krafti. Hann var t.d. með 48% hlutfallsmarkvörslu í leik gegn Tremblay um síðustu helgi.


Nice er í sjöunda sæti af 16 liðum 2. deildar um þessar mundir en stutt er liðið á keppnistímabilið.

Hæg og örugg uppbygging

Grétar Ari segir Nice vera í sókn, jafnt utan vallar sem innan. Aukið fjármagn hefur komið inn í reksturinn. Markmiðið sé að byggja það hægt og bítandi upp og reyna að ná einu af sex efstu sætunum á þessu tímabili og komast þar með í umspil um sæti í 1. deild. Svo langt hefur Nice aldrei náð en það var í neðri hluta deildarinnar þegar Grétar gekk til liðs við það sumarið 2020. „Svo skilst mér að markið sé sett á að gera alvarlega atlögu að sæti í efstu deild keppnistímabilið 2022/2023,“ sagði Grétar Ari.


Mikill áhugi er fyrir handknattleik í suðurhluta Frakklands en þar er að finna mörg af öflugustu liðum landsins. „ Forráðamenn Nice vilja komast í þann hóp.“

Dinart framkvæmdastjóri

Grétari Ara líður vel hjá félaginu. Hann segir ákveðna byrjunarörðugleika hafa verið fyrst eftir að hann kom en umgjörðin hafi batnað mikið. Enn sé unnið að úrbótum. M.a. var fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari Frakka, Didier Dinart, ráðinn framkvæmdastjóri liðsins í sumar.

„Vonandi verður hægt að bæta örlitlu við svo við getum lætt okkur upp í baráttuna á toppnum.“

Laus samningur í vor

Samningur Grétars Ara við Nice gildir fram á mitt næsta ár. Hann segir meiri líkur en minni að hann skrifi undir nýjan samning við félagið þótt verulegur áhugi hafi vaknað fyrir honum meðal stjórnenda annarra félaga í Frakklandi.

„Eftir góða frammistöðu á síðasta keppnistímabili er áhugi fyrir hendi hjá öðrum liðum. Á móti kemur að nú stendur yfir uppbygging hjá Nice sem er áhugavert að taka þátt í áfram. Auk þess er mikill áhugi fyrir hendi meðal stjórnenda félagsins að halda í mig. Meðal annars stendur mér til boða mun betri samningur en í upphafi."

Fær yfirleitt 60 mínútur

„Til viðbótar veit að ég að ég fæ nánast undantekningarlaust að leika í 60 mínútur hjá Nice. Það hefur mikið að segja. Mig langar ekki að festast fyrir aftan stórstjörnu hjá öðru liði. Eins og mál standa núna þá þykir mér ekki ósennilegt að ég verði áfram hjá Nice,“ sagði Grétar Ari Guðjónsson, handknattleiksmarkvörður, í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -