- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lárus Helgi sá til þess að KA-menn fóru tómhentir heim

Þorgrímur Smári Ólafsson sækir á vörn KA í vetur. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson.
- Auglýsing -

KA-menn höfðu leikið sjö leiki í Olísdeildinni og bikarkeppninni án taps þegar Framarar náðu að brjóta baráttuglaða Akureyringa á bak aftur í Safamýri í dag í 12. umferð Olísdeildar, 26:22. Það var ekki síst fyrir stórbrotna frammistöðu Lárusar Helga Ólafssonar, markvarðar Fram, sem KA-menn máttu bíta í það súra epli að halda heim á leið tómhentir.


Lárus Helgi átti frábæran leik í marki Fram, varði alls 18 skot og var með 45% hlutfallsmarkvörslu. Einkum reyndist Lárus Helgi vera leikmönnum KA óþægur ljár í þúfu þegar leið á síðari hálfleikinn og útlit var fyrir að leikmenn væru að komast inn í leikinn. Þá skellti Lárus Helgi í lás og sýndi á stundum hreint ótrúleg tilþrif. Á sama tíma dró bróðir hans vagninn í sókninni með mikilvægum mörkum og stoðsendingum á samherja sína.
Fram-liðið er þar með enn ósigrað á heimavelli á leiktíðinni.

Framarar voru með frumkvæðið lengst af í leiknum í Safamýri í dag. Þeir voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik 14:12, og voru komnir með fimm marka forskot snemma í þeim síðari, 17:12, þegar hver sóknin á fætur annarri fór fyrir ofan garð og neðan hjá KA-mönnum.


KA-liðið reyndi að snúa vörn í sókn en allt kom fyrir ekki. Ýmist snerust vopnin í höndum leikmanna liðsins eða þá að Lárus Helgi sá við þeim þegar minnsta vonarglæta lifnaði.


Mörk Fram: Þorgrímur Smári Ólafsson 8, Stefán Darri Þórsson 4, Arnar Snær Magnússo 3, Kristinn Hrannar Bjarkason 3, Rógvi Christiansen 2, Matthías Daðason 2/2, Vilhelm Poulsen 1, Andri Már Rúnarsson 1, Kristófer Dagur Sigurðsson 1, Þorvaldur Tryggvason 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 18/1, 45%.

Mörk KA: Áki Egilsnes 7, Patrekur Stefánsson 5, Árni Bragi Eyjólfsson 4, Jóhann Geir Sævarsson 3, Einar Birgir Stefánsson 2, Ragnar Snær Njálsson 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 10/1, 27.8%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -