- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leiðinlegt að ná ekki 100% nýtingu

Orri Freyr Þorkelsson var kallaður inn í landsliðið í morgun. Mynd/Haukar
- Auglýsing -

„Þetta var flott, reyndar eitt skot sem klikkaði hjá mér en þá náði ég frákastinu og gat skorað. Leiðinlegt að vera ekki með hundrað prósent nýtingu,“ sagði hornamaður Hauka, Orri Freyr Þorkelsson, léttur í bragði þegar handbolti.is hitti hann eftir sigur Hauka á Stjörnunni, 32:26, í Olísdeildinni í TM-höllinni í gærkvöld.


„Leikur okkar hikstaði í fyrri hálfleik sem sést best á fjölda tapaðra bolta hjá okkur. Þegar kom fram í síðari hálfleik þá náðum við okkur á strik, vörnin small og markvarslan var frábær. Þar með skildu leiðir okkar og Stjörnumanna. Leikurinn var að ég held nokkuð skemmtilegur þótt hraðinn hefði mátt vera meiri. Við skoruðum reyndar 32 mörk sem er allt í lagi,“ sagði Orri Freyr og bætti við að hann væri ánægður með tvo síðustu leiki Haukanna, þennan og viðureignina við ÍBV á laugardaginn fyrir viku.
„Gróttuleikurinn var eins og hann var. En við ætlum að halda áfram að byggja ofan á síðustu tvo leiki. Það er ekkert annað í stöðunni.“

Markahæsti maður liðsins


Orri átti stórleik, skoraði 10 mörk í 11 tilraunum, þar af skoraði hann úr fimm vítaköstum en í því sjötta brást Orra bogalistin. Hann bætti það upp með því að ná frákastinu og skora. Orri hefur leikið afar vel í tveimur síðustu leikjum Hauka og skorað 18 mörk eftir að hafa þurft að dúsa utan vallar í fyrsta leik Hauka í deildinni gegn Gróttu. Orri Freyr tók þá út leikbann sem hann hafði ekki náð að taka út þegar keppni á Íslandsmótinu var hætt vegna kórónuveirunnar. Engu að síður er Orri Freyr markahæsti leikmaður Hauka til þessa í deildinni.

Áfram á braut framfara


„Markmið mitt er halda áfram á þeirri braut sem ég er á, bæta minn leik og leggja mitt í að gera leik okkar betri,“ sagði Orri Freyr sem æfði vel á þeim sex mánuðum sem liðu frá því að keppni var hætt í marsbyrjun og þar til þráðurinn var tekinn upp fyrir rúmum hálfum mánuði.

„Ég æfði eins og fyrir mig var lagt, sýndi sjálfsaga og æfði einnig aukalega. Hléið var stundum kannski full langt en við því var ekkert að gera.“

Orri Freyr, sem er uppalinn Haukamaður, hefur tekið miklum framförum á síðustu tveimur til þremur árum. „Ég komst almennilega inn í Haukaliðið fyrir tveimur árum og mér hefur gengið mjög vel. Það er mjög gott að vera hjá Haukum ef áhugi og vilji er til þess að bæta sig sem handknattleiksmaður,“ sagði Orri Freyr sem stefnir langt í íþrótt sinni. Og kannski er ekki langt að bíða þess að hann banki á dyrnar hjá landsliðsþjálfaranum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -