- Auglýsing -
- Auglýsing -

Má æfa með strákunum eftir helgi – Allt á réttri leið hjá Elvari Erni

Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður og leikmaður MT Melsungen. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ástandið er bara nokkuð gott. Upp á síðkastið hef ég jafnt og þétt aukið álagið og í næstu viku má ég vonandi byrja að æfa með strákunum. Ég er orðinn nokkuð leiður á að æfa einn út í horni meðan strákarnir eru hinum megin í salnum á fullri ferð,“ sagði Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska 1. deildarliðsins MT Melsungen þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans síðdegis í gær.


Elvar Örn fékk þungt högg á vinstri öxlina í fyrri umspilsleiknum við Austurríki um sæti á HM 2023 um miðjan apríl og hefur síðan verið fjarri góðu gamni á handknattleiksvellinum.


„Við höggið rifnaði liðpokinn í axlarskálinni og ég fór nánast úr axlarlið, slapp þó við það þótt ég væri með einkenni þess að hafa farið úr lið. Öll liðbönd sluppu sem betur fer. Það flýtir mjög fyrir bata,“ sagði Elvar Örn sem viðurkennir að það hafi reynt á þolinmæðin að vera með handlegginn í fatla í sex vikur og geta lítið gert, mega t.d. ekki lyfta upp ungum syni.

Elvar Örn Jónsson liggur í gólfinu eftir byltuna í leiknum við Austurríki í Bregenz í apríl. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


„Af því að skaðinn var í liðpokanum þá gat maður ekkert annað gert en beðið meðan allt gréri. Ekki var hægt að flýta fyrir bata með æfingum,“ sagði Elvar Örn.

Vonast eftir leik í október

„Næstu fjórar vikur fara í að æfa í kontakt með samherjunum og vonandi get ég fullfrískur tekið þátt í mínum fyrsta leik með liðinu á tímabilinu fyrir landsleikjahléið rétt fyrir miðjan október,“ sagði Elvar Örn en endurhæfingin hefur gengið vel. Hann gekkst undir aðgerð hér á landi í maí og var eftir það í þrjá mánuði heima og hóf endurhæfingu undir stjórn föður síns, Jón Birgis Guðmundssonar sjúkraþjálfara á Selfossi, um leið og kostur var á.


„Ég er bjartsýnn enda hefur þróunin verið mjög góð og ekkert óvænt komið upp. Segja má að eftir aðgerðina hafi allt gengið samkvæmt áætlun til þessa sem er virkilega ánægjulegt,“ sagði Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður MT Melsungen í Þýskalandi.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -