- Auglýsing -
- Auglýsing -

Magnað að fá svona stórt tækifæri snemma á ferlinum

Orri Freyr Þorkelsson flytur til Noregs í júlí. Mynd/Haukar
- Auglýsing -

„Ég er ótrúlega spenntur fyrir þessu. Það kom mér í opna skjöldu þegar að ég frétti af áhuga Elverum á mánudaginn í síðustu viku. Eftir það gengu hlutirnir hratt fyrir sig,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson, vinstri hornamaður Hauka, sem skrifaði í gær undir tveggja ára samning við norska meistaraliðið Elverum. Greint var frá væntanlegum vistaskiptum hans í morgunsárið.


„Ég hikaði ekkert vegna þess að það umhverfi sem Elverum-liðið býður upp á hentar mér mjög vel til að taka næsta skref á ferlinum. Félagið er frábært og ég er fullur eftirvæntingar að spila og æfa með Elverum,“ sagði Orri Freyr þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans fyrir stundu.

Fyrr en ég reiknaði með

„Fyrir mér er þessi samningur bara draumurinn að rætast og það mögulega fyrr en ég hafði reiknað með. Ég átti ekki von á að samningur við jafn stórt félag og Elverum er ræki á fjörur mínar svona snemma á ferlinum. Það er magnað að fá tækifæri til að halda áfram að elta draumana,“ sagði Orri Freyr sem er á öðru ári í íþróttafræði í Háskólanum. Hann segist eiga eftir að skoða hvaða möguleika hann hafi á að ljúka náminu samhliða handboltanum í Noregi.


„Umgjörðin hjá liðinu er frábær og þar er allt til alls,“ sagði Orri Freyr sem leitaði upplýsinga um félagið hjá samherja sínum í Haukaliðinu, Þráni Orra Jónssyni sem var leikmaður Elverum frá 2017 til 2019.

Spenntur fyrir Meistaradeildinni

Fyrir utan að vera öflugasta félagslið Noregs í karlaflokki þá hefur Elverum verið þátttakandi í Meistaradeild Evrópu undanfarin ár og verður áfram á næsta keppnistímabili. Orri Freyr segist horfa til þess með eftirvæntingu að öðlast tækifæri til að leika í Meistaradeildinni, svo snemma á ferlinum, en hann er 21 árs gamall. „Það er ómetanlegt og ljóst að ég mun leggja mig allan fram á þeim vígstöðvum eins og öðrum,“ sagði Orri Freyr sem er með 80% skotnýtingu á tímabilinu en hann er markahæsti leikmaður Hauka með 94 mörk í 15 leikjum. Til viðbótar hefur Orri Freyr nýtt 79 % vítakasta og 91% hraðaupphlaupa sem hann hefur tekið fyrir Hauka í Olísdeildinnni.

Leikstíllinn hentar vel

Elverum hefur m.a. orðið norskur meistari fjórum sinnum á síðustu fimm árum. Liðið leikur hraðan handknattleik. „Leikur Elverum er hraður og hentar mér mjög vel því leikstíll minn byggist upp á hraða.“

Orri Freyr er fenginn til Elverum til að fylla í skarð norska landsliðsmannsins Alexander Blonz sem gengur til liðs við Pick Szeged í sumar. Orri Freyr mun keppa um stöðuna við Sindre Heldal sem einnig samdi við Elverum fyrir skemmstu. Heldal er jafnaldri Orra Freys, fæddur 1999, og kemur til Elverum frá Bergen.

Skemmtilegur tími framundan


„Ég bara mjög spenntur fyrir að kynnast þessum strák eins og öðrum nýjum samherjum mínum hjá Elverum. Ég er viss um að framundan er skemmtilegur tími hjá mér.“

Þakklátur Haukum

Áður en Orri Freyr heldur út til Noregs í byrjun júlí lýkur hann keppnistímbilinu með Haukum sem tróna nú á toppi Olísdeildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir.

„Ég er afar þakklátur Haukum fyrir allt það sem félagið hefur fært mér í gegnum tíðina, bæði í tengslum við handboltann og annað honum tengt. Haukar eru toppklúbbur. Þar er allt starfið í toppi. Markmið okkar fyrir tímabilið var að vinna allt titla sem sem í boði voru á tímabilinu. Það markmið stendur óhaggað,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson, leikmaður Hauka og verðandi liðsmaður norska meistaraliðsins Elverum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -