- Auglýsing -
- Auglýsing -

Margir Danir supu hveljur

Leikmenn hollenska landsliðsins fagna eftir sigur á Dönum á æfingamóti í Árósum í gærkvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Danska kvennalandsliðið í handknattleik lék sinn slakasta leik undir stjórn Jesper Jensen í gærkvöldi þegar það tapaði með átta marka mun fyrir hollenska landsliðinu á fjögurra þjóða æfingamóti í Árósum, 30:22. Eftir jafna stöðu snemma leiks, 4:4, tók hollenska liðið öll völd á leikvellinum og lék sér að Dönunum eins og köttur að mús. Níu marka munur var eftir fyrri hálfleik, 18:9.


Síðari hálfleikur byrjaði ekki vel af hálfu danska landsliðsins. Það lenti mest 11 mörkum undir, 21:10.


Mörgum Dönum svelgdist á meðan þeir fylgdust með leiknum enda eru aðeins 36 dagar þangað til flautað verður til leiks á Evrópumeistaramótinu þar sem danska landsliðið verður á meðal þátttakenda. Eftir góðan árangur á síðustu tveimur stórmótum undir stjórn Jensens eru talsverðar væntingar gerðar til landsliðsins á EM sem haldið verður í Svartfjallalandi, Slóveníu og Norður Makedóníu.

Stórsigur hjá Þóri

Heims- og Evrópumeistarar Noregs, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, léku við hvern sinn fingur í hinum leik mótsins í gær. Norðmenn unnu landslið Sviss með 17 marka mun, 39:22.


Ekki verður leikið á mótinu í kvöld en á morgun mætast Danmörk og Sviss annarsvegar og Noregur og Holland hinsvegar. Síðustu leikirnir fara fram á sunnudaginn.

Fleiri landslið notuðu tækifærið í gær og léku vináttulandsleiki til undirbúnings fyrir EM. Úrslit nokkurra leikja voru sem hér segir:

Serbía – Spánn 30:28 (16:17).
Svíþjóð – Brasilía 31:25 (13:12).
Rúmenía – Austurríki 32:32 (16:15).
Slóvenía – Ungverjaland 22:22 (12:9).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -