Molakaffi: Ómar Ingi, Englert, Olympiakos, Hessellund, Sävehof, Kristinn

Ómar Ingi Magnússon er í liði 31. umferð þýska handknattleiksins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Ómar Ingi Magnússon er í liði 31. umferðar þýsku 1. deildarinnar í handknattleik þegar það var tilkynnt í gær. Hann átti magnaðan leik þegar Magdeburg vann Hamburg, 32:22, á sunnudaginn. M.a. skoraði hann 12 mörk.
  • Þýski handknattleiksmarkvörðurinn, Sabine Englert, hefur samið til eins árs við danska úrvalsdeildarliðið Århus United eftir 12 ára veru hjá Herning-Ikast. Englert stendur á fertugu og er afar reynslumikil. Hún hleypur í skarðið hjá Árósarliðinu fyrir Noru Persson sem sleit krossband fyrir skömmu og verður frá allt næsta keppnistímabil.  Englert hefur lengi verið í fremstu röð markvarða. Hún hætti að leika með þýska landsliðinu fyrir 11 árum, þá ekki orðin þrítug. 
  • Olympiakos varð grískur meistari í handknattleik karla í gærkvöld eftir að hafa lagt meistara tveggja síðustu ára og erkifjendurna í AEK, 25:23, í fjórðu viðureign liðanna um meistaratitilinn. Olympiakos var síðast meistari 2019. Liðið vann þrjá leiki en AEK einn. Þjálfaraskiptin eftir fyrsta tapleikinn virðast ekki hafa skilað skjótum árangri. 
  • Danski handknattleiksmaðurinn Jacob Hessellund hjá úrvalsdeildarliðinu Lemvig-Thyborøn kom út úr skápnum á dögunum. Hann er annar  danski handknattleiksmaðurinn í sögunni sem segir frá opinberlega að hann sé samkynhneigður. Morten Fisker fyrrverandi leikmaður Viborg varð fyrstur til þess fyrir 19 árum. Síðan hefur ríkt þögn.
  • Hessellund er 29 ára gamall og hefur leikið með nokkrum liðum á ferlinum, þar á meðal Aalborg Håndbold og Mors-Thy áður en hann gekk til liðs við Lemvig. 
  • Sävehof er komið yfir í einvíginu við Skuru um sænska meistaratitilinn í handknattleik kvenna. Sävehof vann á heimvelli í gærkvöld með fjögurra marka mun, 36:32,  og hefur þar með tvo vinninga en Skuru einn. Skuru varð meistari á síðasta ári. 
  • Kristinn Hrannar Bjarkason hefur óskað eftir að verða leystur undan samningi við Fram. Eftir því sem næst verður komist hyggst Kristinn taka sér frí frá handknattleik á næsta keppnistímabili. Hann hefur leikið með Fram á undanförnum árum en lék upp yngri flokka og árum saman með meistaraflokki Aftureldingar
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -