- Auglýsing -
- Auglýsing -

Rauk inn í klefa og rak þjálfarann á staðnum

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Stamatis Papastamatis forseti gríska meistaraliðsins AEK Aþenu mun ekki vera gefinn fyrir hálfvelgju né að tvínóna þegar kemur að því að taka ákvarðanir. Það sannaðist í gær þegar hann kom inn í klefa til leikmanna strax að loknum framlengdum tapleik við Olympiakos og rak þjálfarann Dimitris Dimitroulias á staðnum að viðstöddum hnípnum leikmönnum sem voru að búa sig undir að skola af sér svitann.


Hafði Papastamatis ekki uppi neinar vífilengjur. Hélt hann þrumandi ræðu og tæpitungulausa yfir leikmönnum og þjálfara svo undir tók í íþróttahöllinni. Voru stóru orðin síst spöruð og sátu menn sem flemdri slegnir yfir reiðilestrinum sem stóð yfir í nærri hálftíma. Dimitroulias hefur þjálfað AEK síðustu þrjú ár.


Tapið fyrir Olympiakos í fyrsta leik liðanna um gríska meistaratitilinn var kornið sem fyllti mælinn hjá Papastamatis. Á síðasta laugardag tapaði AEK fyrir Pylaias í úrslitum bikarkeppninnar, nokkuð sem Papastamatis átti erfitt að sætta sig við. Þegar við bættist tap fyrir erkióvininum, Olympiakos, brast þolinmæði forsetans.


Papastamatis tilkynnti leikmönnum að nýr þjálfari taki við svo fljótt sem kostur er. Næsta viðureign AEK og Olympiakos verður á þriðudaginn á heimavelli síðarnefnda liðsins.

Uppfært: Alexandros Alvanos aðstoðarþjálfari tekur við af hinum burtrekna þjálfara. Alvanos hefur verið aðstoðarþjálfari liðsins síðustu ár og var um skeið skærasta stjarna í grískum handknattleik. Lék hann m.a. um árabil í þýsku 1. deildinni.


AEK Aþena hefur verið öflugasta handknattleikslið Grikklands í karlaflokki á undanförnum árum og m.a. gert það gott á Evrópumótum félagsliða. Talsverður uppgangur hefur verið í grískum handknattleik á síðustu árum sem m.a. hefur sýnt sig í bættum árangri karlalandsliðsins eftir fremur mögur ár frá Ólympíuleikunum í Aþenu fyrir 18 árum.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -