Mørk meiddist – óttast það versta en vonað það besta

Nora Mörk virðist hafa sloppið við alvarlega meiðsli. Mynd/EPA

Menn vona það besta en búa sig undir það versta eftir að norska handknattleiksstjarnan, Nora Mørk, meiddist á vinstra hné í viðureign Vipers Kristiansand og Rostov Don í Meistaradeild kvenna í handknattleik í Ungverjalandi í kvöld.


Aðeins var hálf þriðja mínúta eftir af leiknum í kvöld þegar Mörk, sem var komin í langa klippingu frá hægri til vinstri þegar hún stakk skyndilega við á vinstri fæti og fór af leikvelli. Hún segist hafa fundið smell í hnénu á hlaupunum. Þetta er sama hnéið og hún meiddist á 2019 sem hélt henni í um ár frá keppni. Þá slitnaði krossband.

Læknar vonast til þess að hún hafi sloppið við krossbandaslit en það skýrist á morgun. Hnéið er sagt stöðugt. Myndataka mun skýra ástandið betur.

Mörk hefur verið einstaklega óheppin með meiðsli síðustu ár. Vonir stóðu til að hún hafi náð heilsu eftir að hafa geta æft og leikið fram til þessa á keppnistímabilinu. Hún fór á kostum með norska landsliðinu á EM í desember og varð Evrópumeistari, markadrottning og leikmaður mótsins.

Mikið álag hefur verið á Vipers liðinu sem var í kvöld að leika sinn þriðja leik í Meistaradeildinni á einni viku. Vipers liðið lagði land undir fót vegna strangra sóttvarnareglna í Noregi sem hefur útilokað liðið frá þátttöku í keppninni á heimavelli.

Rostov-Don vann leikinn í kvöld, 24:23.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -