- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óábyrgt að halda EM leikjum og HM til streitu

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Mín skoðun er sú að það sé óábyrgt eins og ástandið er að leika tvo leiki í undankeppni EM í byrjun janúar og ætla sér til viðbótar að halda heimsmeistaramót í handknattleik í framhaldinu,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla við handbolta.is í dag. Hann segist ekki skilja á hvaða forsendum menn ætli að halda þessum alþjóðlegu leikjum og mótahaldi til streitu. Sjálfur er hann væntanlega á leið í 10-14 daga sóttkví ásamt einum ef ekki tveimur leikmönnum íslenska landsliðsins.

„Ástandið fer því miður ekki batnandi um þessar mundir. Veiran er á fullu allstaðar. Um alla Evrópu er síður en svo að draga úr áhrifum hennar,“ sagði Guðmundur Þórður sem veltir fyrir sér hvort stjórnendur Alþjóða handknattleikssambandsins og Handknattleikssambands Evrópu gefi heilsu handknattleiksfólk nógu sterkan gaum.
„Til hvers á að leika þessa leiki með tilheyrandi ferðalögum, millilendingum og rútuferðum. Af hverju segir enginn, hingað og ekki lengra?“ spyr Guðmundur Þórður.

„Í þessu ástandi ætla menn að halda úti landsleikjum

Þegar Guðmundur Þórður valdi 20 manna landsliðshóp sinn í síðustu gagnrýndi hann m.a. að leikirnir í undankeppni EM við Portúgal 6. og 10. janúar færu fram. M.a. þarf íslenska landsliðið að fara til Portúgal 4. janúar, leika þar tveimur dögum síðar og sá þá fram á tveggja daga heimferð fyrir síðari leikinn 10. Vegna fleiri lokana Evrópuþjóða, m.a. á Bretland, verður enn erfiðara en ella að komast til og frá Portúgal. Staðan í Evrópu hefur síður en svo skánað á undangenginni viku.

Hver er tilgangurinn?

„Æfingar fyrir leikina við Portúgal verða nánast engar og síðan förum við beint á HM þar sem hver leikurinn rekur annan. Undirbúningurinn verður nánast enginn. Er bara tilgangurinn að leika handbolta og láta heilsu handboltamanna og undirbúning þeirra lönd og leið? Í þessu ástandi veit maður heldur ekki hvaða hóp maður verður með í höndunum og hvernig ástandið verður á leikmönnum. Mér finnst þetta allt vera mjög ábyrgt í ljósi þessara fordæmalausu tíma sem við lifum á. Ég skil þetta hreinlega ekki,“ segir Guðmundur Þórður.

Landsliðsmenn á leið í sóttkví

Þrír leikmenn Melsungen, liðsins sem Guðmundur Þórður þjálfar í Þýskalandi, greindust í gær smitaðir af veirunni. Þeir eru komnir í sóttkví en verða að vísu skimaðir aftur í dag ásamt öllum öðrum leikmönnum. Flest bendir til þess að Guðmundur og leikmenn hans séu á leið í að minnsta kosti 10 daga sóttkví. Þar á meðal Arnar Freyr Arnarsson, landsliðsmaður og leikmaður Melsungen. Eins stefnir í að Janus Daði Smárason, leikmaður Göppingen og landsliðmaður sé einnig á leið í sóttkví.
Janus og félagar léku við Melsungen á sunnudaginn, daginn áður en smit greindust í herbúðum Melsungen. Sóttkví þýðir að Guðmundur, Arnar Freyr og Janus koma varla til landsins fyrr en í byrjun nýs árs en ekki fyrir áramót eins og til stóð.

„Af hverju segir enginn, hingað og ekki lengra?“


„Þá velti ég fyrir mér hvernig staðan á þeim verður og öðrum leikmönnum. Nær allir landsliðsmennirnir eiga eftir að leika með félagsliðum sínum fram að áramótum,“ segir Guðmundur.

Hafa misst nákomna ættingja

Að veirunni hafi skotið á ný upp í herbúðum Melsungen er mikið áfall fyrir leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn félagsins enda hafa veikindi af völdum veirunnar sett mark sitt á liðið. Landsliðmaðurinn Finn Lemke smitaðist í byrjun nóvember og hefur alls ekki náð fullri heilsu ennþá. Lemke glímir m.a. við ýmsar hliðarverkanir. Einn leikmaður liðsins er meiddur. Þau meiðsli eru rakin til veirunnar. Læknir Melsungen veiktist alvarlega fyrir nokkrum vikum auk þess sem starfsmenn liðsins hafa misst nákomna ættingja s.s. foreldra af völdum veirunnar.

Ég bara skil þetta ekki

„Þetta ástand stendur okkur öllum mjög nærri hér hjá liðinu og þess vegna var það mikið andlegt áfall þegar upp komst um smit þremenninganna í gær. Þess utan sem við vorum sem lið rétt að ná okkur almennilega af stað aftur eftir hálfs mánaðar sóttkví í nóvember þar sem æfingar féllu niður. Fyrstu vikurnar eftir að við komum úr sóttkví varð að fara varlega til að ofgera ekki mönnum. Maður er orðinn hálf dofinn í þessu ástandi sem er virkilega slæmt hér í Þýskalandi eins og um alla Evrópu. Í þessu ástandi ætla menn að halda úti landsleikjum í undankeppni EM og heimsmeistaramóti. Ég bara skil þetta ekki,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik og þjálfari MT Melsungen í Þýskalandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -