Ragnar og Rasimas riðu baggamuninn

Ragnar Jóhannsson skoraði sigurmark Selfoss í kvöld. Mynd/Selfoss/SÁ

Ragnar Jóhannsson og markvörðurinn Vilius Rasimas sáu til þess að Selfoss fór með bæði stigin úr viðureign sinn við Stjörnuna í Hleðsluhöllinni í kvöld í lokaleik dagsins í Olísdeild karla í handknattleik, lokatölur 29:28, eftir æsispennandi lokamínútur. Ragnar skoraði sigurmarkið þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka og Rasimas sá um að verja skot Tandra Más Konráðssonar á endasprettinum.

Reyndar fengu leikmenn Stjörnunnar aukakast sem tekið var þegar leiktíminn var úti. Skot Björgvins Hólmgeirssonar hafnaði í varnarvegg Selfossliðsins sem þar með fagnaði öðrum heimasigri í röð.

Vilius Rasimas, markvörður Selfoss, hefur átt marga góða leiki á keppnistímabilinu. Mynd/Selfoss/SÁ


Selfoss er þar með komið upp í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig eftir 12 leiki. Aðeins FH og Haukar hafa önglað saman fleiri stigum og bæði eiga þau leiki til góða.


Stjarnan situr í áttunda sæti en aðeins munar fimm stigum á liðinu í níunda sæti, Fram, og Haukum sem tróna á toppnum.


Selfoss var með tveggja marka forskot í hálfleik, 16:14. Stjarnan komst einu marki yfir snemma í síðari hálfleik áður en Selfossliðið tók völdin á ný og var með tveggja til þriggja mark forskot þar til lokamínúturnar runnu upp og Stjörnumönnum tókst að jafna metin og vera nærri því að hirða annað stigið með sér yfir Hellisheiðina.


Selfossliðð varð fyrir áfalli áður en leikurinn hófst þegar Guðmundur Hólmar Helgason meiddist á hné í upphitun. Hann kom ekkert við sögu í leiknum. Óvíst er hversu alvarleg meiðsli Guðmundar eru.


Mörk Selfoss: Ragnar Jóhannsson 7, Hergeir Grímsson 6/2, Atli Ævar Ingólfsson 4, Hannes Höskuldsson 4, Magnús Öder Einarsson 4, Alexander Már Egan 3, Nökkvi Dan Elliðason 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 16, 37%.

Mörk Stjörnunnar: Starri Friðriksson 7, Tandri Már Konráðsson 5, Leó Snær Pétursson 373, Björgvin Þór Hólmgeirsson 3, Hrannar Bragi Eyjólfsson 3, Dagur Gautason 2, Brynjar Hólm Grétarsson 2, Arnar Máni Rúnarsson 1, Pétur Árni Hauksson 1, Sverrir Eyjólfsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 14, 33%.

Tölfræði leiksins er fengin frá vísir.is.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -