- Auglýsing -

Roland og félagar eru í rútu frá Kyiv – vita ekki hvað tekur við

Roland Eradze t.h. ræðir við leikmann HC Motor. Mynd/Motor

„Við erum í rútu á leið frá Kyiv til Zaporizhia og vonumst til en vitum ekki hvort við komumst á leiðarenda,“ sagði Roland Eradze, aðstoðarþjálfari úkraínska meistaraliðsins í handknattleik HC Motor Zaporizhia í samtali við handbolta.is fyrir stundu.


Roland var þá á ferð með leikmönnum, þjálfurum og starfsmönnum HC Motor liðsins til austurhluta landsins þar sem borgin Zaporizhia er, nokkuð fyrir norðan Krímskaga, þaðan sem rússneska hersveitir herjuðu m.a. inn í Úkraínu í nótt úr suðri. Roland sagði alveg óvíst hvað bíði þeirra eða hvort þeir komast á leiðarenda.


Roland er íslenskur ríkisborgari og hefur starfað hjá HC Motorliðinu í nærri tvö ár en félagið er með bækistöðvar í borginni Zaporizhia.

Fóru í loftið rétt fyrir innrás Rússa

Roland kom til Kyiv klukkan fjögur í nótt að staðartíma frá Póllandi þar sem HC Motor lék í Meistaradeild Evrópu í handknattleik gegn Vive Kielce. „Við lögðum af stað frá Kielce áður en Rússar hófu innrás. Þeir byrjuðu meðan við vorum í loftinu,“ sagði Roland spurður hvort ekki hafi komið til greina hjá liðinu í gær að verða um kyrrt í Póllandi.

Lokaður flugvöllur í Zaporizhia

Roland sagði að ekki hafi verið mögulegt að lenda í Zaporizhia og því hafi vélinni verið snúið til Kyiv. Flugvöllurinn í Zaporizhia hafi þá þegar verið lokaður.

Var snúið við

„Þegar við voru komnir áleiðis til Zaporizhia var okkur sagt að flugvöllurinn væri lokaður og því var farið til Kiev. Þar lentum við á Zhuliany-flugvelli við Kyiv. Alþjóðlegi flugvöllurinn, Boryspil, var þá þegar lokaður,“ sagði Roland og bætti við að skiljanlega hafi verið uppnám á flugvellinum þegar flugvélin með HC Motor liðið lenti þar. Fólk var á harðahlaupum að komast í burtu, jafnt starfsmenn sem þeir fáu sem voru að koma með flugi.

„Við fórum inn á hótel í Kyiv og vorum þar þangað til lagt var af stað með rútu til Zaporizhia. Venjulega er það um 10 tíma ferð með rútu en við vitum að sjálfsögðu ekki hversu lengi við verðum núna eða hvað tekur við,“ sagði Roland Eradze, handknattleiksþjálfari í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -