- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórleikur Katrínar Óskar í öruggum Framsigri

Ragnheiður Júlíusdóttir stórskytta Fram og landsliðskona í handknattleik. Mynd/Fram
- Auglýsing -

Fram kom sér upp að hlið Vals og KA/Þórs í Olísdeild kvenna í kvöld með öruggum sigri á lánlausum leikmönnum Stjörnunnar, 33:26, í TM-höllinni í Garðabæ. Stjarnan átti fyrri hálfleikinn en í síðari hálfleik hvorki gekk né rak og Fram vann afar öruggan sigur. Ekki síst var það fyrir stórleik Katrínar Óskar Magnúsdóttur markvarðar. Hún fór á kostum í markinu og varði 20 skot, þó var hún ekki allan leikinn á milli stanganna í marki Safamýrarliðsins.


Stjarnan byrjaði leikinn af miklum krafti með öflugum varnarleik og góðri markvörslu sem gaf talsvert af hraðaupphlaupum með þeim afleiðingum að Stjarnan skoraði átta af fyrstu 10 mörkum leiksins. Um miðjan hálfleikinn var sex marka munur, 11:5.


Fram-liðið herti róðurinn þótt á móti blési og stóð vörnina vel þegar tækifæri gafst. Þrjú hraðaupphlaupsmörk í röð breyttu stöðunni úr 11:6 í 11:9. Fjórar sóknir Stjörnunnar í röð fóru út um þúfur og Fram færði sér það í nyt og minnkað muninn í eitt mark, 13:12, þegar fjórar mínútu voru eftir af fyrri hálfleik.


Ekki var heldur verra fyrir Fram að Katrín Ósk náði sér vel á strik í markinu.


Tinna Húnbjörg Einarsdóttir sá til þess að það var tveggja marka munur í hálfleik þegar hún varði vítakast Lenu Margrétar Valdimarsdóttur, Fram, eftir að leiktíminn var út, 15:13.

Ragnheiður Júlíusdóttir jafnaði metin loksins fyrir Fram eftir fimm mínútur í síðari hálfleik, 16:16. Kristrún Steinþórsdóttir kom Fram yfir í fyrsta sinn í leiknum, 17:16, tveimur mínútum eftir mark Ragnheiðar. Ragnheiður bætti síðan við öðru marki úr vítakasti og kom Fram tveimur mörkum yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Stjarnan var þá aðeins búin að skora einu sinni. Skot liðsins höfðu verið illa ígrunduð auk þess sem Katrín Ósk hélt uppteknum hætti frá fyrri hálfleik og varði allt hvað af tók.


Þeirri forystu sem Fram-liðið náði snemma í síðari hálfleik tókst Stjörnuliðinu aldrei að ógna. Heldur dró í sundur með liðunum þegar á leið, munurinn jókst, Fram í hag.


Ekki létti það Stjörnunni róðurinn að Sólveig Lára Kjærnested fékk höfuðhögg rétt fyrir miðjan síðari hálfleik og 12 mínútum fyrir leikslok fékk Helena Rut Örvarsdóttir slæma byltu. Helena kom aftur við sögu á síðustu mínútunum en það var orðið um seinan.

Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 9/4, Helena Rut Örvarsdóttir 5, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 4, Anna Karen Hansdóttir 2, Áshildur Bertha Bjarkardóttir 1, Sólveig Lára Kjærnested 1, Kartin Tinna Jensdóttir 1, Elísabet Gunnarsdóttir 1, Karen Tinna Demian 1, Katla María Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Tinna Húnbjörg Einarsdóttir 10, 31,3 % – Hildur Öder Einarsdóttir 2, 15,4%.
Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 9/2, Karen Knútsdóttir 7, Kristún Steinþórsdóttir 5, Karólína Bæhrenz Lárudóttir 4, Lena Margrét Valdimarsdóttir 3/1, Unnur Ómarsdóttir 3, Jónína Hlín Hansdóttir 2,
Varin skot: Katrín Ósk Magnúsdóttir 18, 51,4%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -