- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórliðin í austri hafa bara eitt markmið

Jovanka Radicevic og samherjar landsliði Svartfjallalands máttu þola tap fyrir japanska landsliðinu. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Meistaradeild kvenna hefst laugardaginn 12. september og við á handbolti.is ætlum að nota þessa viku í það að kynnast þeim liðum 10 liðum sem við teljum munu berjast um að komast í Final4 úrslitahelgina í Búdapest í maí.  Í gær var fjallað um dönsku liðin Esbjerg og Odense en nú er röðin komin að svartfellska liðinu Buducnost og CSM Bucaresti.

Buducnost

Buducnost er eitt af stærstu félögunum í kvennahandboltanum. Þetta er tuttugasta og fimmta árið sem liðið tekur þátt í Meistaradeild kvenna. Það hefur fimm sinnum komist í Final4 úrslitahelgina og staðið uppi sem sigurvegarar tvisvar sinnum, árin 2012 og 2015.  Dragan Adzic hefur verið þjálfari liðsins frá árinu 2010 og hans bíður það verkefni að koma nýjum leikmönnum inn í þann leikstíl sem hann kýs að leka. Líkt og undanfarin ár mun aðalsmerki liðsins vera öflugur varnarleikur, hraðaupphlaup og agaður sóknarleikur. Með tilkomu nýju leikmannanna, Allison Pineau, Andrea Lekic og Barbara Arenhart eykst reynslan í herbúðum Buducnost.

Lykilleikmaðurinn:  Jovanka Radicevic

Jovanka Radicevic sem er fædd og uppalin í Podgorica hóf að iðka handknattleik tólf ára gömul með Buducnost. Eftir að hafa spilað erlendis í níu ár með liðum á borð við Györ, Vardar og CSM Bucaresti ákvað hún að snúa aftur heim árið 2019. Hún er sannur leiðtogi sem leiðir lið sitt áfram en hún var markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð með 97 mörk var einnig valin í úrvalslið deildarinnar. Hún leggur sig alltaf fram og er með mikla ástríðu fyrir leiknum og það tvennt gerir Radicevic að einum mikilvægasta leikmanni liðsins.

Valeriia Maslova fyrir miðri mynd var hjá Rostov-Don áður en hún færði sig um set til Buducnost. Mynd/EPA

Hvernig meta þær sína getu?

Leikmannahópur liðsins hefur tekið miklum breytingum frá síðustu leiktíð, tíu leikmenn hafa yfirgefið liðið en Adzic ásamt forráðarmönnum félagsins hafa fyllt þau skörð með frábærum leikmönnum á borð við þær Andrea Lekic, Allison Pineau ásamt ungum og efnilegum leikmönnum eins og Valeriia Maslova og Itana Grbic. Þessir öflugu leikmenn munu hjálpa liðinu til þess að ná þeim háu markmiðum sem liðinu eru sett af Radmila Petrovic forseta félagsins. „Félagið er að skapa leikmönnum og þjálfarateyminu bestu aðstæður til þess að ná góðum úrslitum. Allt annað en farseðill í Final4 úrslitahelgina í Búdapest er skandall að mínu mati.”

Komnar / Farnar:
Komnar: Andrea Lekic (CSM Bucuresti), Valeriia Maslova (Rostov Don), Allison Marie Pineau (Paris 92), Barbara Elisabeth Arenhart (Vaci NKSE), Itana Grbic (CSM Bucuresti)

Farnar: Barbara Lazovic (CSM Bucaresti), Djurdjina Jaukovic (Brest Bretagne Handball), Anastasija Babovic (Dunaujvarosi Kohasz KA), Ivana Godec (Iuventa Michalovce), Branka Konatar (RK Krim Mercator), Matea Pletikosic (RK Krim Mercator), Marina Rajcic (rest season), Emily Stang Sando (SG BBM Bietigheim), Sanja Vujovic (no club), Sanja Premovic (Iuventa Michalovce)

CSM Bucaresti

Rúmenska liðið er að taka þátt í Meistaradeild kvenna í sjötta árið í röð og í öll skipti hefur það náð í 8-liða úrslit eða lengra. Bucaresti náði að stimpla sig rækilega í fremstu röð kvennaliða þegar að þær náðu að vinna Meistaradeildina árið 2016. Þær hafa þó ekki náð að fylgja þeim árangri nægilega vel á eftir.  Ástæðu þess má meðal annars rekja til tíðra þjálfaraskipta en liðið hefur skipt ellefu sinnum um þjálfara á síðustu fimm árum en nú veðja þau á hinn rúmenska Adrian Vasile en hann er búinn að vera aðstoðarþjálfari liðsins frá árinu 2014.

Cristina Neagu hefur verið um árabil ein allra besta handknattleikskona heims. Mynd/EPA

Lykilleikmaður: Cristina Neagu

Cristina Neagu sem er orðin 32 ára gömul er að nálgast lokametrana á sínum ferli en hún er staðráðin að ná að vinna Meistaradeildina öðru sinni áður en hún lætur skóna á hilluna frægu. Þessi frábæra handknattleikskona átti frábært tímabil á síðustu leiktíð eftir að hafa gengið í gegnum erfið meiðsli á hné. Því miður fékk hún ekki tækifæri að sýna sig í Final4 vegna Covid-19 ástandsins. En Neagu er staðráðin í að koma enn sterkari til baka á þessari leiktíð en hún er sjöunda markahæsta kona í sögu Meistaradeildarinnar með 685 mörk á ellefu tímabilum. Hún er sannur leiðtogi bæði innan sem utan vallar fyrir rúmenska liðið.

Hvernig meta þær sína getu?

CSM Bucaresti stefnir alltaf hátt en því miður hafa liðið ekki náð að fylgja sigrinum í Meistaradeildinni 2016 eftir. Það hefur alltaf eitthvað vantað á þessum fjórum árum sem liðið hafa.  Hvatning, liðsanda eða meiðslavandræði ár eftir ár. En ef allt er eðlilegt þá getur liðið hæglega náð inní Final4 úrslitahelgina. Remus Draganescu framkvæmdarstjóri félagsins er einn af reyndari framkvæmdarstjórunum í rúmenskum handbolta hefur sett mikla pressu á liðið sitt, „CSM Bucaresti er félag sem stefnir ávallt á gullverðlaun.  Kvennaliðið okkar stefnir á hámarks árangur í Meistaradeild kvenna.“

Komar / Farnar:

Komnar: Siraba Dembele (Toulon Saint-Cyr Var Handball), Alexandrina Cabral Barbosa (Nantes Atlantique Handball), Martine Smeets (Metz Handball), Barbara Lazovic (Buducnost).

Farnar: Andrea Lekic (Buducnost), Itana Grbic (Buducnost), Nora Mørk (Vipers Kristiansand), Mădălina Ion (U Cluj), Bianca Marin (CS Măgura Cisnădie), Linnea Torstensson (hætt), Iulia Curea (hætt).

Spænska handknattleikskonan Alexandrina Cabral Barbosa gekk til liðs við CSM Bucaresti í sumar. Mynd/EPA
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -