- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stórt og öruggt skref stigið

Undirbúningur fyrir EM heldur áfram. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Íslenska karlalandsliðið steig mjög stórt skref í áttina að þátttöku á 12. Evrópumeistaramótinu í röð þegar það vann mjög öruggan sigur á ísraelska landsliðinu, 30:20, í Tel Aviv í kvöld. Ísland þarf eitt stig úr tveimur síðustu leikjum sínum til þess að vera alveg gulltryggt um keppnisrétt á EM sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar á næsta ári.


Hægt verður að innsigla þátttökuna á fimmtudaginn þegar Ísland og Litáen mætast í Vilnius í næst síðasta leik Íslands í undankeppninni.
Íslenska liðið gaf tóninn strax í upphafi og skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins og fjögur af þeim fyrstu fimm. Ísraelsmenn léku langar sóknir sem reyndi mjög á þolrif íslensku varnarmannanna. Heimamenn voru að sama skapi oft seinir aftur í vörnina og það nýtti íslenska liðið sér til þess að skora mörk eftir hraðaupphlaup og seinni bylgju og eða vinna vítaköst.

Varnarleikurinn var traustur með Ými Örn Gíslason og Arnar Frey Arnarsson í aðalhlutverkum auk þess sem Viktor Gísli var vel vakandi í markinu.

Ýmir Örn Gíslason, Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson léku afar vel í vörn íslenska landsliðsins. Mynd/HSÍ


Með ákveðnum leik breytti íslenska liðið stöðunni úr 6:2 í 10:3 þegar stundarfjórðungur var liðin af leiknum. Heldur dró úr hraðanum þegar á leið fyrri hálfleikinn en það breytti ekki þeirri staðreynd að íslenska liðið hélt áfram að bæta við forskot sitt. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn 17:9 og leikurinn hálf óspennandi.


Íslenska landsliðið slakaði aðeins á klónni í upphafi síðari hálfleiks og Ísraelsmenn náðu að minnka muninn í sjö mörk um skeið. Þeir héldu áfram að leika langar sóknir.

Um miðjan síðari hálfleik var munurinn orðinn tíu mörk, 25:15, og það eitt að gera fyrir íslenska liðið að ljúka leiknum á sömu nótum.

Elvar Örn Jónsson og Aron Pálmarsson. MyndHSÍ


Yermiyahu Avihu Amiel Sidi markahæsti leikmaður ísraelska liðsins gegn Litáum í gærkvöld var ekki með að þessu sinni. Var það sannarlega skarð fyrir skildi. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að þegar íslenska liðið leikur af fullum þunga þá er mikill munur á þessum tveimur landsliðum, Íslandi í hag. Ef til vill hefur það haft sitt að segja fyrir Ísraelsmenn að þeir voru að leika sinn annan leik á tveimur dögum. Leikmenn liðsins eru varla vanir því.


Varnarleikur íslenska liðsins var til fyrirmyndar alla leikinn. Það er ekki auðvelt að halda einbeitingu til lengdar gegn liði sem fær að leika langar sóknir eins og Ísraelsmenn fengu að gera að þessu sinni. Markvarslan var að sama skapi frábær hjá báðum markvörðum, Viktori Gísla Hallgrímssyni og Ágústi Elí Björgvinssyni eða um 45%. Sóknarleikurinn var góður í 45 mínútur en það var eins og einbeitingu væri ábótavannt undir lokin og skal engan undra þegar sigurinn var sannarlega löngu kominn í höfn.

Viktor Gísli Hallgrímsson og Ágúst Elí Björgvinsson, markverðir íslenska landsliðsins bera saman bækur sínar. Mynd/HSÍ


Mörk Íslands: Elvar Örn Jónsson 5, Ómar Ingi Magnússon 5/4, Viggó Kristjánsson 5/1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 4, Aron Pálmarsson 3, Bjarki Már Elísson 3, Arnar Freyr Arnarsson 1, Oddur Gretarsson 1, Sveinn Jóhannsson 1, Tandri Már Konráðsson 1, Teitur Örn Einarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 11, Ágúst Elí Björgvinsson 8.

Ómar Ingi Magnússon lék mjög vel en hann kom aðeins við sögu í fyrri hálfleik. Mynd/HSÍ

Íslenska landsliðið hefur sex stig eftir fjóra leiki eins og portúgalska landsliðið. Ísaelsmenn hafa tvö stig að loknum fjórum leikjum og sama er upp á teningnum hjá landsliði Litáen.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -