Svíar voru of sterkir – úrslitaleikur í Zrenjanin

Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Svíar tryggðu sér farseðlinn á Evrópumeistaramótið í handknattleik kvenna með öruggum sex marka sigri á íslenska landsliðinu, 29:23, á Ásvöllum í kvöld í næst síðustu umferð 6. riðils undankeppni EM. Svíar voru fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:12, og náðu mest átta marka forystu á köflum í síðari hálfleik.


Sænska landsliðið lék á köflum frábæran handknattleik. Leikmenn liðsins er fljótir og snöggir auk þess að vera einstaklega skot- og sendingarvissir. Þess utan eru þeir líkamlega sterkari enda leika margir þeirra með allra fremstu félagsliðum Evrópu. Þá hefur sænska landsliðið verið á meðal fimm efstu á tveimur síðustu stórmótum, Óympíuleikunum í Tókýó og HM á Spáni í desember.


Þrátt fyrir talsverðan styrkleikamun á liðunum þá hafði maður á tilfinningunni að íslenska landsliðið hefði getað gert betur. Það missti stöðuna niður í fimm mörk á lokamínútum fyrri hálfleiks eftir að hafa verið tveimur til fjórum mörkum undir. Talsvert af tækifærum fóru í súginn.


Upphafskafli síðari hálfleiks var slakur. Svíar náðu sjö marka mun snemma. Forskot sem þeir létu aldrei af hendi og náðu mest átta marka mun. Íslenska liðið átti þess kost að minnka muninn í fimm mörk þegar sex mínútur voru til leiksloka. Allt kom fyrir ekki.


Sóknarleikurinn var á tíðum erfiður, einkum hefði færanýting getað verið betri. Hinsvegar hélt íslenska liðið áfram krafti leiksloka. Það lagði aldrei árar í bát.


Framundan er úrslitaleikur við Serba um EM-farseðilinn í Zrenjanin á laugardaginn. Það verður allt öðru vísi leikur. Hægari og væntanlega þyngri.


Mörk Íslands: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 6, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 2, Sandra Erlingsdóttir 2/1, Lovísa Thompson 2, Steinunn Björnsdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 7, 29,2% – Hafdís Renötudóttir 4, 25%.
Mörk Svíþjóðar: Jamina Roberts 5, Elin Hansson 5, Natalie Hagman 5, Jenny Helen Karlsson 4, Nina Dano 3, Linn Blohm 2, Carin Strömberg 2, Emma Lindquist 1, Sara Johnasson 1, Melissa Petrén 1.
Varin skot: Evelina Eriksson 12, 40%, Nora Persson 2, 28,6%.

Handbolti.is er á Ásvöllum og fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -