- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Þetta er hreinlega ekki hægt, því miður“

Útilokað er að landsleikir fari fram í knattspyrnuhöllum hér á landi. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, HSÍ, segir að ekki sé fjárhagslegur grundvöllur til þess að útbúa knattspyrnuhallir hér á landi s.s. Egilshöll eða Kórinn þannig að hægt væri að koma fyrir handknattleiksvelli ásamt áhorfendastæðum fyrir fimm þúsund áhorfendur, svo dæmi sé tekið.


„Fyrir nokkrum árum lét HSÍ gera kostnaðargreiningu við að útbúa handboltavöll fyrir einn stóran leik í Egilshöllinni. Kostnaðurinn var slíkur að það var útilokað að standa undir verkefninu,“ sagði Róbert Geir spurður en vangaveltur um tímabundnar lausnir hafa vaknað vegna þess að bygging þjóðarhallar rekur á reiðanum og uppselt er á landsleik Íslands og Austurríkis í undankeppni HM sem fram fer á laugardaginn.


Róbert Geir sagði í samtali við handbolta.is í gær að eftirspurnin eftir miðum leikinn á laugardaginn væri slík að mögulegt hefði verið að selja allt að 4.000 aðgöngumiða.

Flytja þarf allt inn

„Sem dæmi eru ekki til hér á landi áhorfendastúkur sem hægt væri að nýta. Stúkurnar verður að leigja og flytja inn frá Evrópu auk allskyns annars búnaðar. Kostnaður við að fá allt sem þarf, sem er nánast allt, og við uppsetningu var slíkur að verkefnið gat aldrei staðið undir sér, hvað þá skilað afgangi. Hver aðgöngumiði hefði orðið fokdýr,“ sagði Róbert Geir ennfremur.


Róbert Geir segir ekki hægt að bera saman tónleika í knattspyrnuhöllunum með heimsþekktu tónlistarfólki þar sem miðaverð getur hlaupið á tugum þúsunda saman við einn handboltaleik. „Það er bara allt annarskonar viðburður og alls ekki samanburðarhæft.“

Ekki samanburðarhæft

Fyrir um áratug flutti Fimleikasambandið inn áhorfendastúkur og alls kyns fjölbreyttan búnað og setti upp í frjálsíþróttahöll Laugardalshallar vegna Evrópumótsins í hópfimleikum. Þótti vel til takast.

„Í tilfelli Fimleikasambandsins var um að ræða stórmót sem tók yfir í nokkra daga. Það er allt annað en einn handboltaleikur og ekki heldur samanburðarhæft. Þetta er hreinlega ekki hægt, því miður,“ sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -