- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tveir erfiðir stundarfjórðgungar í Skopje

Rut Arnfjörð Jónsdóttir sækir að vörn Norður-Makedóníu í leiknum í dag. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik tapaði fyrir Norður-Makedóníu með sjö marka mun, 24:17, í fyrsta leik liða þjóðanna í forkeppni heimsmeistaramótsins í A1 Arena SC Boris Trajkovski-íþróttahöllinni í Skopje í dag. Þremur mörkum munaði á liðunum að loknum fyrri hálfleik, 11:8, Norður-Makedóníu í vil. Næsti leikur íslenska landsliðsins verður gegn Grikkjum annað kvöld klukkan 18.


Tapið að þessu sinni var óþarflega stórt úr því að það varð raunin á annað borð. Síðasti stundarfjórðungur í báðum hálfleikum reyndist íslenska landsliðinu erfiður.

Upphafskafli leiksins var frábær af hálfu íslenska landsliðsins. Það skoraði sjö af fyrstu níu mörkum leiksins. Steinunn Björnsdóttir skoraði sjöunda mark Íslands eftir hraðaupphlaup þegar fjórtán og hálf mínúta var liðin, 7:2. Hún lenti illa, meiddist á hné og kom ekkert meira við sögu. Eftir það var eins og það slokknaði á íslenska liðinu í um tíu mínútur. Á meðan gengu leikmenn Norður-Makedóníu á lagið.

Lovísa Thompson og Steinunn Björnsdóttir í hörðum slag snemma leiks. Mynd/HSÍ


Fyrsti stundarfjórðungur síðari hálfleiks var einnig vel leikinn af hálfu íslenska landsliðsins. Það vann upp forskot Norður-Makedóníukvenna og komst yfir, 15:14. Eftir það datt botninn svolítið úr sóknarleiknum. Mateja Serafimova tók að verja allt hvað af tók í marki Norður-Makedóníu. Til viðbótar var nokkuð um mistök í sóknarleiknum.


Varnarleikur Íslands var góður í leiknum og þótt það væri mikið áfall að missa Steinunni út úr honum þá tókst að halda varnarleiknum góðum lengst af. Elín Jóna Þorsteinsdóttir var frábær í markinu og varði 16 skot. Sóknarleikurinn hikstaði því miður á köflum og skytturnar skiluðu ekki sínu að þessu sinni.

Enn eru tveir leikir eftir hjá íslenska liðinu, gegn Grikkjum á morgun og Litháen á sunnudag. Báða daga verður flautað til leiks klukkan 18. Sigur í báðum tryggir þátttöku í umspilinu fyrir HM.


Mörk Íslands: Lovísa Thompson 3, Ragnheiður Júlíusdóttir 3/2, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 3/1, Helena Rut Örvarsdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1, Sigríður Hauksdóttir 1, Steinunn Björnsdóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 16 – 40% hlutfallsmarkvarsla.
Gangur leiksins: 1:0, 1:1, 1:2, 2:2, 2:7, 8:7, 8:8, 11:8, 12:8, 12:13, 14:15, 17:15, 17:16, 21:16, 24:17.

Íslenska landsliðið fyrir leikinn í Skopje. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -