- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tyrkir eru með hörkulið

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna var þjálfari ÍBV 2018. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

Kvennalandsliðið í handknattleik kemur saman á föstudaginn og hefur þá undirbúning fyrir tvo mikilvæga leiki við Tyrki í 6. riðli undankeppni Evrópumótsins sem fram fara 2. og 6. mars. Fyrri viðureignin verður í Kastamonu í Tyrklandi á miðvikudaginn eftir viku en sú síðari á Ásvöllum sunnudaginn 6. mars kl. 16.

Eftir tvær umferðir í riðlinum er íslenska landsliðið með tvö stig ásamt Serbum. Svíar tróna á toppnum með fjögur stig en Tyrkir reka lestina án stiga.

Hafa tekið miklum framförum

„Tyrkir eru með hörkulið. Þeir hafa tekið miklum framförum á síðustu árum og eru svo sannarlega verðskuldaðir andstæðingar,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is.

Einn leikur í einu

„Eins og áður þá verðum við að einbeita okkur að því sem við erum að gera og eiga okkar besta dag. Þá er allt hægt. Við ætlum okkur að halda áfram að taka framfaraskref. Það er okkar markmið fyrst og fremst. Okkur dugir alveg að einbeita okkur að þessu verkefni sem framundan er. Fyrst er það leikurinn í Kastamonu og síðan tekur við heimaleikur,“ sagði Arnar ennfremur.

Rut Arnfjöð Jónsdóttir og Elísa Elíasdóttir eru í landsliðshópnum sem valinn var fyrir leikina við Tyrki. Ragnheiður Júlíusdóttir gaf ekki kost á sér að þessu sinni af persónulegum ástæðum. Mynd/Mummi Lú
Íslenska landsliðið leggur af stað út á sunnudaginn og ferðast til Istanbúl. Þar verður áð yfir nótt en haldið áfram með klukkustundar innanlandsflugi til Kastamonu á mánudagsmorgun. Þriðjudagurinn fer síðan í æfingar og annan undirbúning. Á fimmtudagsmorgun verður ferðast með rútu til Istanbúl og þaðan með flugi með einni millilendingu heim. „Við ákváðum að fara með rútu frá Kastamonu til Istanbúl svo mögulegt verði að komast heim á einum degi,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari.

Eiga lið í Meistaradeildinni

Uppgangur hefur verið í tyrkneskum kvennahandknattleik á síðustu árum. Meistaralið landsins Kastamonu Belediyesi GSK tók þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í vetur auk þess sem tyrkneskt félagslið var með í Evrópudeildinni. „Það er aðdáunarvert hversu langt Tyrkir eru komnir í kvennahandboltanum,“ sagði Arnar.

Úrslit til þessa í 6.riðli undankeppni EM:
Serbía - Tyrkland 36:27.
Svíþjóð - Ísland 30:17.
Tyrkland - Svíþjóð 23:31.
Ísland - Serbía 23:21.
Serbar og Svíar mætast 3. og 5. mars.
Síðustu leikir riðlakeppninnar fara fram í vikunni eftir páska. Tvö efstu liðin í riðlinum tryggja sér keppnisrétt á EM sem fram fer í desember í Slóveníu, Svartfjallalandi og Norður Makedóníu í desember.
Góð stemning hefur verið í íslenska landsliðinu. Mynd/Mummi Lú

Hefur verið stígandi í okkar leik

Arnar valdi 19 leikmenn til þess að taka þátt í undirbúningi og þátttöku í leikjunum við Tyrki. Um er að ræða nánast sama leikmannahóp og hefur tekið þátt í síðustu verkefnum, æfingamóti í Tékklandi í nóvember og í leikjunum við Svía og Serba í riðlakeppnin EM í byrjun október.


„Það hefur verið stígandi í okkar leik að mínu mati, jafnt í vörn sem sókn. Áfram verður unnið í að bæta ofan á það sem vel hefur tekist til með. Ég treysti þessum leikmönnum til þess að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á,“ sagði Arnar Péturssson sem hlakkar til að landsliðshópurinn komi saman á föstudaginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -