U18: „Boltinn hefur vanist vel“

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Undanfarnar vikur hefur landslið Íslands í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, æft með nýjum bolta sem keppt verður með í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu sem hefst á laugardaginn í Skopje í Norður Makedóníu. Boltinn er þeim eiginleikum gæddur að ekki er þörf á harpix. Boltinn góði er sagður vera byltingarkennd nýjung og er hugarfóstur Hassan Moustafa, forseta Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF.


Þegar ljóst var að íslenska landsliðið tæki þátt í heimsmeistaramótinu kom sending af boltunum til landsins svo leikmenn gætu búið sig undir mótið með réttum bolta. Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara landsliðsins segir að boltinn hafi reynst vel. Hann sé aðeins minni en hefðbundni boltinn og fari þar með betur í lófa.

Smá bras í fyrstu

„Boltinn hefur vanist vel,“ sagði Ágúst Þór spurður hvernig leikmönnum hafi gengið að venjast boltanum góða.

„Það var smá bras í fyrstu og tók nokkrar æfingar fyrir stelpurnar að venjast gripnum. Eftir því sem æfingunum fjölgaði með boltann gekk betur. Nú er svo komið að mér sýnist tæknifeilar til dæmis ekki vera fleiri en með gamla boltanum með harpixinu,“ sagði Ágúst Þór Jóhannesson sem hélt utan með sveit sína til Skopje í morgun þar sem fyrsta æfing íslenska liðsins verður á morgun áður en upphafsleikur liðsins verður á laugardaginn gegn Svíum og þá með nýja boltanum.

Riðlaskiptingin á HM.
A-riðill: Svartfjallaland, Svíþjóð, Alsír, Ísland.
B-riðill: Íran, Norður Makedónía, Usbekistan, Senegal.
C-riðill: Danmörk Portúgal, Austurríki, Færeyjar.
D-riðill: Króatía, Kasakstan, Egyptaland, Indland.
E-riðill: Rúmenía, Holland, Gínea, Slóvenía.
F-riðill: Þýskaland, Sviss, Slóvakía, Suður Kórea.
G-riðill: Noregur, Tékkland, Brasilía, Úrúgvæ.
H-riðill: Ungverjaland, Frakkland, Argentína, Spánn.

Handbolti.is ætlar að fylgjast með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Norður Makedóníu, m.a. með textalýsingum.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -