U18: Eigum fyrir höndum hörkuleiki á HM

U18 ára landsliðið kvenn er lagt af stað á HM í Skopje. Mynd/HSÍ

„Undirbúningur hefur staðið yfir í rúmlega tvær vikur. Við teljum okkur vera á góðum stað um þessar mundir og leikmenn eru spenntir fyrir að takast á við þetta stóra verkefni,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U18 ára landslið kvenna sem fór í morgun til Norður Makedóníu til þátttöku á heimsmeistaramótinu sem hefst á laugardaginn.

Íslenska landsliðið var fyrsta varaþjóð inn á mótið og var boðin þátttaka í maí eftir að uppstokkun varð á þátttökuliðum, m.a. vegna brotthvarfs Rússlands og Hvíta-Rússlands af sviði alþjóða handknattleiksins. Þetta er í fyrsta sinn sem U18 ára landslið kvenna frá Íslandi tekur þátt í heimsmeistaramóti.

Talsverð reynsla

„Að stórum hluta er um sama leikmannahóp og tók þátt í B-hluta Evrópumótsins fyrir ári síðan og var með í forkeppni heimsmeistaramótsins í nóvember. Fyrir hendi er talsverð reynsla á meðal margra leikmanna. Margar hafa leikið í kringum fimmtán landsleiki sem telst vera góð alþjóða reynsla á þessum aldri. Við erum með gott lið.

Frá æfingu U18 ára landsliðsins í vikunni. Mynd/aðsend


Á hinn bóginn þá erum við á leiðinni í A-keppni heimsmeistaramóts sem ekki er daglegt brauð í handknattleik kvenna hér á landi. Þess vegna verður virkilega spennandi að sjá hvernig hlutirnir muni þróast hjá okkur og hvar við stöndum,“ sagði Ágúst Þór sem hefur ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni haldið utan um hópinn í æfingum og keppni í rúmlega eitt ár með góðum árangri.

Leikir Íslands í A-riðli HM:
30. júlí: Ísland - Svíþjóð, kl. 10.30.
31. júlí: Ísland - Svartfjallaland, kl. 16.20.
2. ágúst: Ísland - Alsír, kl. 10.30.
Leiktíminn tekur mið af klukkunni á Íslandi.

Leikið verður í átta fjögurra liða riðlum á HM. Tvö efstu lið hvers riðils leika um sextán efstu sætin en tvö þau neðri um sæti sautján til þrjátíu og tvö.

Hvernig sem gengur í riðlakeppninni er ljóst að íslenska landsliðsins bíða fjórir leikir eftir að riðlakeppninni verður lokið.

Fyrsti leikur á laugardaginn

Íslenska landsliðið er í A-riðli mótsins ásamt landsliðum Alsír, Svartfjallalands og Svíþjóðar. Fyrsti leikur Íslands verður á móti Svíum á laugardaginn. Ágúst Þór segist hafa séð nokkra leiki með Svíum og Svartfellingum og sannfærst um það sem hann vissi svo sem fyrir að um afar sterk lið er að ræða. Minna er vitað um lið Alsír sem verður síðasti andstæðingurinn í riðlakeppninni þriðjudaginn 2. ágúst.

Aldrei að vita hvað gerist

„Það er klárt mál að fyrirfram eru Svíar og Svartfellingar með sigurstranglegustu liðin í riðlinum. Okkar markmið er að sýna góða frammistöðu í öllum leikjum. Þá er aldrei að vita hvað getur gerst á handboltavellinum.


Auðvitað viljum við verða annað af tveimur liðunum sem fara upp úr riðlinum og í hóp sextán efstu liða. Við áttum okkur vel á að það verður mjög krefjandi verkefni. Við komum inn í mótið sem lið í fjórða og síðasta styrkleikaflokki en um leið þá vil ég undirstrika að við höfum á að skipa liði sem hefur í gegnum tíðina náð góðum úrslitum, unnið fleiri leiki en við höfum tapað. Gæðin eru svo sannarlega fyrir hendi í okkar hóp. Ef við náum að sýna okkar bestu hliðar þá eigum við að geta velgt andstæðingum okkar undir uggum og kannski lagt einhverja að velli.

Til að byrja með þá er okkar markmið að ná heilsteyptri og góðri frammistöðu. Takist það þá eigum við fyrir höndum hörkuleiki,” segir Ágúst Þór ákveðinn.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Ísland á landslið á HM kvenna í keppni landsliða 18 ára og yngri. Tvisvar hefur Ísland átt landslið á HM 20 ára landsliða, árin 1999 og 2018. Á síðara mótinu hafnaði íslenska liðið í 10. sæti.

Samæfður leikmannahópur

Fyrir utan tvo vináttuleiki við Færeyinga í byrjun júní hér á landi þá hefur íslenska liðið lítið tekið þátt í æfingaleikjum upp á síðkastið. Helgast það fyrst og fremst af þeirri staðreynd að lið hér á landi eru varla byrjuð að æfa.

„Við höfum leikið innbyrðis á æfingum og náðum svo einum æfingaleik við Gróttu í vikunni. Stelpurnar eru orðnar rútíneraðar og þekkjast vel og hafa leikið marga leiki saman. Undirbúningurinn hefur verið fínn,“ segir Ágúst Þór.


Eins og áður segir fór íslenska liðið af landi brott í morgun ásamt aðstoðarfólki. Æft verður í Skopje á morgun, föstudag, áður en stóra stundin rennur upp á laugardaginn.


„Þetta verður krefjandi en um leið mjög skemmtilegt verkefni,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik.

HM-hópurinn
Markverðir:
Ethel Gyða Bjarnasen, HK.
Ingunn María Brynjarsdóttir, Fram.
Aðrir leikmenn:
Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, HK.
Brynja Katrín Benediktsdóttir, Val.
Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukum.
Elísa Elíasdóttir, ÍBV.
Embla Steindórsdóttir, HK.
Hildur Lilja Jónsdóttir, KA/Þór.
Inga Dís Jóhannsdóttir, HK.
Katrín Anna Ásmundsdóttir, Gróttu.
Lilja Ágústsdóttir, Val.
Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Haukum.
Sara Dröfn Richardsdóttir, ÍBV.
Sonja Lind Sigsteinsdóttir, Haukum.
Thelma Melsteð Björgvinsdóttir, Haukum.
Tinna Sigurrós Traustadóttir, Selfossi.
a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -