- Auglýsing -
- Auglýsing -

U19: Vöknuðu of seint – leika um sjöunda sætið

Íslensku piltarnir mæta Svíum á sunnudaginn í leik um 7. sæti á EM. Mynd/EHF Kolektiffimages
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, tapaði fyrir Portúgal, 33:30, í krossspili um fimmta til áttunda sætið á Evrópumótinu í Króatíu í dag. Þar af leiðandi leikur Ísland við Svíþjóð á sunnudagsmorgun um 7. sæti mótsins en sjö efstu sætin veita þátttökurétt á Ólympíudögum æskunnar á næsta ári. Portúgal leikur við danska landsliðið, undir stjórn Arnórs Atlasonar, um fimmta sætið.

5.-8. sæti:
Svíþjóð - Danmörk, 29:34.
Portúgal - Ísland 33:30.
Danmörk og Portúgal leika um 5. sætið á sunnudaginn kl. 10.15. Ísland og Svíþjóð mætast í leik um 7. sætið klukkan 8 árdegis. Leikirnir verða sýndir á ehftv.com. Svíar unnu Íslendinga í milliriðlakeppninn á síðasta þriðjudag, 29:27.


Porúgalska liðið var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:13, eftir að hafa tekið frumkvæðið í leiknum upp úr miðjum hálfleiknum. Sóknarleikur íslenska liðsins var mistækur og varnarleikurinn ekki nægilega þéttur.

Heimir Ríkarðsson þjálfari ræðir við piltana í einu af leikhléunum í leiknum við Portúgal. Mynd/EHF Kolektiffimages


Benedikt Gunnar Óskarsson minnkaði muninn í þrjú mörk úr fyrstu sókn síðari hálfleiks, 17:14. Því miður gaf mark Benedikts ekki tóninn fyrir íslenska liðið sem virtist alveg hafa tapað áttunum. Sóknarleikurinn var í molum og varnarleikurinn slakur. Portúgölsku piltarnir náðu átta marka forskoti, 25:17, eftir 12 mínútur í síðari hálfleik og þegar stundarfjórðungur var til leiksloka var munurinn sjö mörk, 27:20.


Íslenska liðið vaknaði af værum svefni á lokasprettinum og átti þess kost að minnka muninn í eitt mark í stöðunni 32:30, þegar um hálf mínúta var eftir en það tókst ekki. Allt hefði þurft að ganga upp á endasprettinum til að fá eitthvað út úr leiknum eftir þá slæmu stöðu sem liðið var komið í.

Mörk Íslands: Símon Michael Guðjónsson 9, Arnór Viðarsson 7, Guðmundur Bragi Ástþórsson 5, Andri Már Rúnarsson 3, Arnór Ísak Haddsson 2, Benedikt Gunnar Óskarsson 2, Kristófer Máni Jónasson 1, Jóhannes Berg Andrason 1.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -