- Auglýsing -
- Auglýsing -

U20: Sögulegur sigur Færeyinga á herraþjóðinni

Færeyska U19 ára landsliðið sem vann B-keppni EM á síðasta sumri Uppistaða þess vann Dani á EM í Porto í morgun. Mynd/Færeyska handknattleikssambandið
- Auglýsing -

Færeyingar unnu sögulegan sigur í dag þegar landslið þeirra í handknattleik karla, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, vann danska landsliðið í fyrstu umferð á Evrópumeistaramótinu sem hófst í Porto í morgun, 33:32. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 15:15.


Þetta er fyrsti sigur Færeyinga á Dönum í landsleik í handknattleik frá upphafi og ljóst að þessa dags verður lengi minnst, alltént á meðal handknattleiksáhugafólks í Færeyjum. Óstaðfestar fregnir herma að um sé að ræða fyrsta sigur færeysks landsliðs á dönsku landsliði í boltagrein.


Danir náðu um skeið fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik en færeysku piltarnir með hinn stórefnilega Elias Ellefsen á Skipagøtu fremstan í flokki lögðu ekki árar í bát. Þeir unnu upp forskotið og fóru með sigur úr býtum. Ellefsen er talinn eitt mesta efni í evrópskum handknattleik um þessar mundir og er undir smásjá stórra félaga í Evrópu.

Thomas Arnoldsen var markahæstur hjá Dönum með 13 mörk og átti fimm stoðsendingar. Ellefsen skoraði níu mörk fyrir færeyska landslðið og átti sex stoðsendingar. Pauli Jacobsen átti stórleik í færeyska markinu, varði 15 skot.


Færeyska landsliðið vann B-hluta Evrópumóts 19 ára og yngri í fyrra og vann sér þar með þátttökurétt á meðal 16 bestu Evrópuþjóðanna í flokki 20 ára og yngri að þessu sinni. Uppistaða þessa liðs vann Opna Evrópumótið í handknattleik 17 ára og yngri fyrir þremur árum.


Ásamt Færeyingum og Dönum eru landslið Ungverja og Slóvena í riðlinum. Næsti leikur Færeyinga verður við Slóvena á morgun.


Arnór Atlason er þjálfari danska U20 ára landsliðsins.


Kristján Halldórsson var eftirlitsmaður á leiknum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -