Valsmenn kjöldrógu Eyjamenn

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Valsmenn fengu fljúgandi viðbragð í úrslitakeppninni í handknattleik í kvöld þegar þeir kjöldrógu leikmenn ÍBV með tíu marka mun, 35:25, í fyrstu viðureign liðanna í úrslitum þegar leikið var í Origohöllinni. Leikmenn Vals gerðu út um leikinn strax í fyrri hálfleik en að honum loknum var munurinn 13 mörk, 22:9. Rekur þann sem skrifar þessi orð ekki minni til að annar eins munur hafi verið á liðum að loknum fyrri hálfleik í fyrsta leik í lokaúrslitum Íslandsmóts karla.


Næsti leikur liðanna verður í Vestmannaeyjum á sunnudaginn og verður flautað til leiks klukkan 16.


Eyjamenn virtust fara öfugt inn í leikinn því þeir voru komnir með afar erfiða stöðu strax eftir átta mínútur þegar Valur var kominn með sjö marka forskot, 9:2. Leikmenn ÍBV glopruðu boltanum frá sér hvað eftir annað á einfaldann hátt. Þeir færðu leikmönnum Vals boltann á silfurfati hvað eftir annað. Valsmenn þökkuðu fyrir sig með hraðaupphlaupi eftir hraðaupphlaup.


Staðan var því fljótlega þröng, eins og stundum er sagt við skákborðið. Björgvin Páll Gústavsson varði þar á ofan afar vel í marki Vals, 15 skot í fyrri hálfleik. Mörg þeirra voru ekki góð en þau skot verður líka að verja.


Valsmenn fóru með 13 marka forskot inn í hálfleikinn, 22:9.


Því miður að segja fór síðari hálfleikur að mestu í að bíða eftir leikslokum. Lítil sem engin von var til þess að Valsmenn töpuðu forskotinu niður í jafnan leik. Eyjamenn hertu aðeins upp hugann en það dugði ekki til.


Því miður hljóp aukin harka í leikinn í síðari hálfleik sem setti leiðinlegan svip á viðureignina. Alls voru leikmenn 24 mínútur utan vallar, þar af fengu tveir rautt spjald fyrir að vera þrisvar sinnum vísað af leikvelli. Sem betur fer þá virðist sem enginn hafi borið alvarlegan skaða af. Vonandi var í þessu ekki sleginn tónn fyrir næstu viðureignir liðanna.


Mörk Vals:
Finnur Ingi Stefánsson 6, Stiven Tobar Valencia 6, Arnór Snær Óskarsson 5/4, Magnús Óli Magnússon 4, Tjörvi Týr Gíslason 4, Róbert Aron Hostert 3, Benedikt Gunnar Óskarsson 3, Agnar Smári Jónsson 2, Þorgils Jón Svölu Baldursson 2.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 18/1, 41,9%.
Mörk ÍBV: Elmar Erlingsson 8/4, Dánjal Ragnarsson 3, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2/1, Ásgeir Snær Vignisson 2, Rúnar Kárason 2, Róbert Sigurðarson 2, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Kári Kristján Kristjánsson 1, Friðrik Hólm Jónsson 1, Dagur Arnarsson 1, Arnór Viðarsson 1.
Varin skot: Björn Viðar Björnsso 7/1, 28% – Petar Jokanovic 2, 10,5%.


Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Handbolti.is var í Origohöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -