- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur í öðru sæti – Rut fékk rautt – sýning hjá Lovísu – Zecevic í ham – úrslit og markaskor, lokastaðan

Lovísa Thompson fagnar einu af mörgum mörkum sínum fyrir Val á síðustu árum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Valur tyggði sér annað sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik síðdegis með öruggum sigri á KA/Þór í Origohöllinni þegar lokaumferðin fór fram, 29:23. Valsliðið situr þar með yfir eins og deildarmeistarar Fram í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Stjarnan kjöldró Hauka í TM-höllinni, 32:20, og náði fimmta sætinu.


ÍBV og Stjarnan mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og KA/Þór og Haukar í hinni viðureigninni. Leikdagar eru 28. og 30. apríl, oddaleikir 3. maí á Akureyri og í Vestmannaeyjum.


Rut Arnfjörð Jónsdóttir, leikmaður KA/Þórs og fremsta handknattleikskona landsins um þessar mundir fékk rautt spjald eftir um 12 mínútur í Origohöllinni í viðureigninni við Val. Rut rakst í Auði Ester Gestsdóttur, Valsara, sem var fremsti maður í hraðaupphlaupi. Sú síðarnefnda hafði misst vald á boltanum. Um algjört óviljaverk var að ræða, hreinlega óheppni. Auði virtist ekki saka og lék hún leikinn á enda.

Voru ekki í vafa

Dómarar leiksins Ramunas Mikalonis og Sigurður Hjörtur Þrastarson voru ekki í vafa eftir að hafa borið saman bækur sínar. Þeir fóru eins bókstaflega eftir reglunum og þeim virtist vera kostur.

Botninn datt úr

Með brotthvarfi Rutar má segja að botn hafi dottið úr leiknum þótt KA/Þórsliðið hafi reynt hvað það gat. Leikur liðsins riðlaðist og Valur var einu og tveimur skrefum á undan allt til leiksloka. Staðan í hálfleik var 15:11, Val í vil.

Mögnuð Lovísa

Lovísa Thompson fór á kostum og skoraði 17 mörk fyrir Val í 21 skoti. Fjögur marka sinna skoraði Lovísa úr vítaköstum. Hún skapaði einnig sex marktækifæri. Stutt er síðan Lovísa skoraði 15 mörk í leik með Val gegn ÍBV en þann leik vann Valsliðið einnig 29:23.

Zecevic fór á kostum

Darija Zecevic markvörður Stjörnunnar sá um að draga tennurnar úr leikmönnum Hauka í 12 marka sigri í TM-höllinni, 32:20. Hún skellti í lás í markinu og var með nærri 60% markvörslu. Eftir að Zecevic fór af leikvelli tók Tinna Húnbjörg Einarsdóttir upp þráðinn og varði allt hvað af tók.

Komust ekki nær

Haukum tókst að minnka muninn í 10:9 þegar um fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks eftir að hafa skorað fjögur mörk í röð. Eftir það má segja að leikmenn Hauka hafi aðeins séð undir iljarnar á leikmönnum Stjörnunnar sem gáfu engin grið.


Stjarnan og Haukar urðu jöfn að stigum, með 20 hvort. Stjarnan vann tvo af innbyrðisleikjunum á tímabilinu, Haukar einn. Þar með kom 5. sæti í hlut Stjörnunnar og rimma við ÍBV í úrslitakeppninni.


Minnstu munaði að Afturelding krækti í stig í síðasta leik sínum í bili í Olísdeildinni. Afturelding var með yfirhöndina annað slagið í leik við HK á Varmá, síðast 23:22 þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. HK hafði betur þegar upp var staðið, 25:24.

Afturelding fellur án stiga. HK-liðsins bíður umspil um áframhaldandi veru í Olísdeildinni.


Valur – KA/Þór 29:23 (15:11).
Mörk Vals: Lovísa Thompson 17/4, Thea Imani Sturludóttir 4, Mariam Eradze 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Auður Ester Gestsdóttir 1, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 11/1, 34,4%, Sara Sif Helgadóttir 0.
Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 8/6, Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1, Anna Mary Jónsdóttir 1.
Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 12/1, 29,3%.


Stjarnan – Haukar 32:20 (15:12).
Mörk Stjörnunnar: Anna Karen Hansdóttir 7, Helena Rut Örvarsdóttir 6, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 4, Elena Elísabet Birgisdóttir 3, Lena Margrét Valdimarsdóttir 4, Elísabet Gunnarsdóttir 4/2, Britney Cots 2, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1.
Varin skot: Daija Zecevic 20, 58,8% – Tinna Húnbjörg Einarsdóttir 7, 53,8%.
Mörk Hauka: Ásta Björt Júlíusdóttir 5/1, Berta Rut Harðardóttir 5/2, Sara Odden 2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2, Elín Klara Þorkelsdóttir 2, Birta Lind Jóhannsdóttir 2, Rakel Sigurðardóttir 1, Anna Lára Davíðsdóttir 1.
Varin skot: Margrét Einarsdóttir 9, 23,7% – Heiðbjört Anna Guðmundsdóttir 1/1, 25%.


Afturelding – HK 24:25 (14:13).
Mörk Aftureldingar: Sylvía Björt Blöndal 10, Katrín Helga Davíðsdóttir 4, Anna Katrín Bjarkadóttir 3, Lovísa Líf Helenudóttir 2, Sunan Ines Gamboa 2, Brynja Rögn Fossberg Ragnarsdóttir 2, Ragna Sif Úlfarsdóttir 1.
Varin skot: Tanja Glóey Þrastardóttir 10/1, 28,6%.
Mörk HK: Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 6/4, Jóhanna Lind Jónasdóttir 5, Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir 5, Aníta Eik Jónsdóttir 3, Sóley Ívarsdóttir 2, Alexandra Líf Arnarsdóttir 1, Þóra María Sigurjónsdóttir 1, Guðrún Erla Bjarnadóttir 1, Berglind Þorsteinsdóttir 1.
Varin skot: Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir 6 37,5% – Margrét Ýr Björnsdóttir 2, 12,5%.

Öll tölfræðin úr leikjum dagsins er að finna hjá HBStatz.

Lokastöðuna í Olísdeild kvenna er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -